Seinkun þörungablómans í hafinu hefur afleiðingar fyrir sandsílastofninn og þar með áhrif á stofnstærð lundans og fleiri sjófugla. Rætt við Erp Snæ Hansen um samhengið í lífríki hafsins á vef fiskifrétta.
Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, hefur í rannsóknum sínum um árabil haft augun á lunda og sandsíli. Síðastliðið vor kom út grein þar sem gerð var grein fyrir niðurstöðum alþjóðlegs sérfræðingahóps sem rannsakað hefur samband lundaveiði og sjávarhita allt frá árinu 1880.
Niðurstöðurnar voru meðal annars þær að hitastig hafi ráðið mestu um afkomu lunda.
„Þegar teknar eru saman sveiflur í stofnstærð lundans þá kemur í ljós gríðarsterkt samband við sjávarhita,“ segir Erpur, sem er aðalhöfundur greinarinnar. „Ef lækkar eða hækkar um eina gráðu frá langtímameðaltali þá dettur lundaframleiðslan niður um heil 55%. Að vísu þolir lundinn alveg hitabreytingar, en það er sílið sem er mjög næmt fyrir bæði kólnun og hlýnun. Og það er neikvætt í báðar áttir.“
Að sögn Erps skiptir miklu máli fyrir lundann og reyndar flesta sjófugla hvernig sílinu reiðir af, þannig að sveiflur í lundastofninum fylgja sveiflum sílastofnsins.
Í greininni, sem birtist í Global Change Biology (https://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/gcb.15665) segir að á hlýskeiðinu frá þríunda áratug síðustu aldar fram til sjöunda áratugarins hafi sambandið verið neikvætt, þannig að þegar sjávarhitinn hækkaði þá minnkaði lundaframleiðslan, og öfugt. Hins vegar snerist þetta við bæði fyrir og eftir þetta tímabil, þannig að afkoman batnaði þegar sjávarhitinn hækkaði. Á þessari öld hefur þetta svo snúist við aftur, þannig að þegar hlýna fór upp úr aldamótum þá harðnaði í ári fyrir lundann.
Seinkun vorblómans
„En það er annað sem við erum búnir að uppgötva núna, en það er að um 2003-5 varð gríðarleg seinkun á vorblómanum, um 15 daga að meðaltali. Sem hefur bætt verulega við stofnlægðina á núverandi hlýskeiði (frá 1996) miðað við síðasta hlýskeið“ segir Erpur.
„Þetta þýðir að blómanum seinkar og þá verður rauðátan einnig seinna á ferð. Hún er grasbítur og étur blómann eða þörungana. Rauðátan er aðalfæða sílisins og einnig markríls sem hingað kemur á sjávarhlýskeiðum. Á móti hefur sílaklakið hinsvegar breyst mun minna, en tímasetningin er að mestu háð hitastigi.“
„Það sem gerist er að sílið hrygnir í kringum desember-janúar. Síðar um vorið í mars eða apríl klekjast eggin, og líklega aðeins fyrr núna vegna hærri sjávarhita. Breytileikinn í tímasetningu klaktímans er samt hlutfallslega lítill miðað við þessa miklu seinkun sem verður á blómanum. En það þýðir að sandsílalirfurnar eru margar hungurdauðar þegar fæðutoppurinn sem þær biðu eftir, kemur loks um tveimur vikum seinna en vanalegt er.“
Víðtæk áhrif
Afleiðingarnar eru víðtækar fyrir lífríkið í hafinu.
„Svo ber til tíðinda 2017, því þá fer virðist fara að kólna lítillega í sjónum að sumarlagi, selta snarlækkar og kísilstyrkur eykst úr verulegri lægð. Makríllinn hættir að koma inn á suðurgrunnið, en hann er mjög háður hita. En þegar hann er tekinn út úr sviga og sílinu er haldið niðri af þessum síðbúna blóma, þá er ljósátan það eina sem er eftir til að éta blómann. Henni fjölgar gríðarlega, þessari stærstu tegund sem er út af landgrunnskantinum. Það er sú tegund sem stórhvelin eru að éta og þetta er það sem fullorðni lundinn étur mikið sjálfur hérna úti í Eyjum, og nálægð þessara fæðumiða ein höfuðástæða fyrir fjölda hans í Eyjum.“
„Lundinn skiptist á að fara í langa fæðuöflunarferð og éta hálfa líkamsþyngd sína á dag af ljósátu en koma svo til baka og fara nokkrar stuttar ferðir að ná í síli eingöngu fyrir ungann. Síðan fara þeir aftur í aðra langa ferð, og eru þá að safna sér fitu í löngu ferðunum til að borga fyrir orkuútlátin í styttri ferðunum. Þeir fara sem sagt í mínus í orkubúskapnum hjá sér. Þannig að ljósátan er undirstaðan undir þessu, því lundinn kemur með til unganna innan við 10% af því sem hann veiðir. Þetta er eiginlega allt kostnaður við dýrt flugið sem hann er þarf að éta svona mikið.“
Erpur bætir því síðan við að frá 2017 hafi kísilmagn verið að aukast sem berst með sjávarstraumum frá Labradorhafi.
„Styrkur í svonefndum kaldtempraða hvirfli hefur verið að aukast aftur. Kísilskortur undanfarna áratugi virðist ekki hafa orðið meiri síðustu 80 ár ef miðað er við breytingar á varptíma lunda, en komið hefur í ljós að lundinn bregst sterkt við breytingum á vistkerfinu sem eiga rót sína í tímasetningu blómans eins og sést hefur í gerfitunglum (SeaWIFS).“
Allt hangir þetta því saman, eins og löngum hefur verið vitað, og smám saman eru menn að átta sig betur á því hvernig eitt er háð öðru í lífríkinu.
Gervihnattargögn
Við rannsóknir á árlegri framvindu þörungablóma og annars gróðurs í hafi munar mikið um gögn úr gervihnöttum sem nú hafa staðið vísindamönnum til boða í um aldarfjórðung.
„Þetta er í rauninni bara eins og það hafi opnast nýr gluggi hjá okkur,“ sagði Kristinn Guðmundsson, vísindamaður á Hafrannsóknastofnun, í stuttu spjalli við Fiskifréttir í síðustu viku. „Áður vorum við alltaf háð því að mæla það sem er í sjósýnum, og þá þurftu menn að þvælast um á skipi og taka punktsýni hér og þar.“
Hann segir umrædd gervitunglagögn geta nýst í vistfræðilegum rannsóknum, bæði varðandi árlega framvindu gróðurs og hugsanleg áhrif gróðurframvindu á afkomu dýra á skilgreindum svæðum og tímum.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst