Eyjamenn bættu enn einum bikarnum í safnið nú í kvöld þegar þeir fengu silfurhafa Coca-cola bikarsins, Fram í heimsókn í Meistaraleiknum.
Framarar byrjuðu leikinn ágætlega og það tók Eyjamenn smátíma að finna taktinn. En tóku fljótlega öll völd á vellinum og stýrðu leiknum vel. ÍBV náði mest 10 marka forystu og dreifði Erlingur Richardsson, þjálfari Eyjamanna, álaginu vel á leikmenn. Voru það því tíu leikmenn ÍBV sem skoruðu 30 mörk Eyjamanna. Markahæstir voru þeir Kristján Örn Kristjánsson og Theodór Sigurbjörnsson með sitthvor sex mörkin.
Þrátt fyrir ágætan kafla hjá Fram um miðbik síðari hálfleiks, þar sem þeir náðu muninum niður í þrjú mörk, var sigurinn aldrei í hættu. Lokatölur 30-26 og ÍBV óumdeildir meistarar meistaranna og fjórði meistaratitillinn staðreynd.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst