Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að fá niðurstöðu í leik ÍBV og Aftureldingar í dag í bikarkeppninni. Liðin mættust í roki og rigningu á Hásteinsvelli en eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, varð að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar fékk hvort lið um sig fimm spyrnur en að þeim loknum var staðan jöfn, 3:3. Því var gripið til bráðabana þar sem liðin skiptust á að taka víti og það var ekki fyrr en í fjórðu umferð bráðabanans eða eftir níu umferðir í vítakeppninni að úrslit fengust. Eyjastúlkur klikkuðu á sinni spyrnu en Afturelding skoraði og hafði þar með betur 5:6.