Ísfélag Vestmannaeyja, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands, hefur náð samkomulagi um kaup á tæplega 16% hlut í fiskeldisfyrirtækinu Ice Fish Farm AS, sem hét áður Fiskeldi Austfjarða. Ætla má að kaupverðið hafi verið nálægt 650 milljónum norskra króna, eða um 8,6 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt á vef Viðskiptablaðsins.
Þar segir að verðið í viðskiptunum miðar við 43 norskar krónur á hlut sem er um 65% yfir dagslokagengi Ice Fish Farm í gær. Markaðsgengi fiskeldisfyrirtækisins, sem er skráð á norska Euronext-markaðinn, hefur hækkað um meira en 30% frá opnun markaða í dag og stendur nú í 34,3 norskum krónum.
Ísfélagið kaupir hlutina af Måsøval Eiendom, stærsta hluthafa Ice Fish Farm sem átti fyrir viðskiptin 56% hlut. Viðskiptin fela í sér að eignarhlutur Måsøval Eiendom verður færður inn í nýstofnaða félagið Austur Holding AS, sem Ísfélagið mun eiga 29,3% í.
Í kauphallartilkynningu segir að félögin tvö hafi samþykkt að skrá sig fyrir hlutum í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu Ice Fish Farm upp að því marki að viðhalda 56% samanlögðum eignarhlut í fiskeldisfyrirtækinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst