Vigdís Sigurðardóttir sem stýrir Deloitte í Vestmannaeyjum er fædd og uppalin Eyjakona. Hún gerði garðinn frægan sem markmaður í handboltanum með landsliðinu og varð Íslands- og bikarmeistari með bæði ÍBV og Haukum. Maður hennar er Erlingur Richardsson þjálfari í handbolta. Börnin halda uppi merki þeirra, Sandra spilar með Metzingen í þýsku Bundesligunni, Elmar með Nordhorn í þýsku í B-deildinni og Andri er einn af máttarstólpum ÍBV í Olísdeildinni. Vigdís er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun og hefur starfað hjá Deloitte með hléum síðan 1999. „Það má segja að við þjónustum alla öllum, einstaklingum, fólki með rekstur og endurskoðun hjá stærri félögunum. Ekki bara í Vestmannaeyjum heldur um allt land,“ segir Vigdís. „Starfsemin í Eyjum skiptist í þrennt; endurskoðun, uppgjör og bókhald.
Verkefnin eru í bland Eyjaverkefni og verkefni ofan af landi en með aukinni tölvuvæðingu þá hefur fjarvinna aukist mikið og myndi ég segja að staðsetning verkefna skipti minna máli í dag en það gerði áður. Þessi möguleiki á fjarvinnu hefur gert okkur kleift að efla skrifstofuna okkar með góðu fólki og efla okkur í starfi með fjölbreyttari verkefnum. Vigdís segir reksturinn ganga vel og er ánægð með sitt fólk. „Það góða við Vestmannaeyjar er að við höldum fólki vel og það er ánægt í vinnunni. Við erum tíu og sjáum alveg fyrir okkur að geta orðið stærri í framtíðinni. Það er nóg að gera og auðvelt að vinna hvar sem er, sem er alveg meiriháttar. Stjórnendur Deloitte er mjög jákvæð í okkar garð og styður okkur í að stækka,“ segir Vigdís.
Skrifstofan hér er sú þriðja stærsta hjá Deloitte á landinu. „Þó Vestmannaeyjar séu ekki stór bær erum við heppin með verkefni. Það er litið til okkar mjög jákvæðum augum. Það fjölgar í bænum og maður sér að fólk vill flytja út á land. Það getur tekið vinnuna með sér og í því eru tækifæri fyrir okkur og önnur fyrirtæki.“ Vigdís segir vinnutímann þægilegan en líka sveigjanlegan. „Fólk getur unnið af sér eða bætt upp ef þannig stendur á,“ segir Vigdís. En hvernig viðskiptavinir eru Vestmannaeyingar? „Þeir eru langbestir, erum við ekki alltaf best?“ svarar hún hlæjandi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst