„Á síðasta ári áttu sér stað breytingar á eignarhaldi Íslandsbanka og varð bankinn þá ekki lengur í einkaeigu ríkisins. Stjórn Íslandsbanka ákvað af þeim sökum að gefa hluta listaverkasafns bankans til Listasafns Íslands og annarra viðurkenndra safna.
Þegar ákvörðun bankans var kynnt voru nokkur listaverk gefin völdum söfnum og fékk Listasafn Vestmannaeyja við það tækifæri afhent að gjöf málverk eftir einn þekktasta listamann landsins, Eyjakonuna Júlíönu Sveinsdóttur.“
Frá þessu er sagt á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar, vestmannaeyjar.is.
„Í framhaldinu var leitað til Listasafns Íslands um að ráðstafa til viðbótar samtals 203 listaverkum í eigu bankans til safna hérlendis. Af þessari viðbótargjöf bankans koma 3 til Listasafns Vestmannaeyja, eitt eftir Jón Þorleifsson þar sem myndefnið er Heimaklettur og höfnin, annað eftir Ágúst Petersen af höfninni í Eyjum og hið þriðja, sem sést á myndinni, er annað málverkið sem Íslandsbanki gefur Vestmannaeyjabæ eftir Júlíönu. Fyrir voru á Listasafni Vestmannaeyja fimm málverk eftir listakonuna, með verkinu sem Íslandsbanki hafði gefið fyrr á árinu, auk vefnaðar og vefstóls sem eru á sýningu í Sagnheimum.
Júlíana var merkur brautryðjandi sem listamaður og fyrst íslenskra kvenna til að gera myndlistina að ævistarfi. Hún fæddist í Vestmannaeyjum og bjó hér til 16 ára aldurs er hún flutti til Reykjavíkur til myndlistarnáms og fáeinum árum síðar til framhaldsnáms í Konunglega danska listaháskólann í Kaupmannahöfn. Enda þótt Júlíana hafi búið stærsta hluta ævi sinnar í Danmörku og sinnti þar list sinni voru átthagarnir henni ævinlega kærir og kom hún til Eyja að jafnaði annað hvert sumar til að mála. Það er því afar dýrmætt fyrir Vestmannaeyjar að eignast enn eitt málverkið eftir Júlíönu og fikra sig þannig í áttina að því nauðsynlega markmiði að Listasafn Vestmannaeyja sé í hópi þeirra opinberu safna þar sem minning Júlíönu Sveinsdóttur er haldið hæst á lofti.“
Á myndinni tekur Íris bæjarstjóri við gjöfinni úr hendi Þórdísar útibússtjóra Íslandsbanka í Vestmannaeyja með þeim er Sigurður Friðriksson starfsmaður bankans.
Mynd og texti af vestmannaeyjar.is
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst