Sumarstúlkukeppnin verður haldin í 24. sinn í Höllinni næstkomandi laugardag. Alls taka fjórtán stúlkur þátt í keppninni en stelpurnar voru kynntar sérstaklega í síðasta tölublaði Frétta. Eins og alltaf er boðið upp á glæsilega dagskrá og frábæran mat sem Einsi kaldi matreiðir. Evróvisionstjarnan Jóhanna Guðrún kemur tvívegis fram ásamt gítarleikaranum Davíð Sigurgeirssyni. Þá mun Jónsi í Svörtum fötum koma fram ásamt vinum sínum en hljómsveitin Í svörtum fötum leikur svo fyrir dansi eftir keppnina. Aðalatriðið er hins vegar stelpurnar sem munu koma fjórum sinnum fram, í sérstöku opnunaratriði, tveimur tískusýningum og svo lokaatriði.