Vestmannaeyjabæ barst á dögunum bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga með ábendingu um að skuldahlutfall sveitarfélagsins í A-hluta sé 5% yfir viðmiðum sem sjóðurinn setur sér sjálfur. Um er að ræða staðlað bréf þar sem ekki er tekið tillit til þess að það er lífeyrisskuuldbinding sveitarfélags sem kallar fram þetta skuldahlutfall þar sem sveitarfélagið er ekki með neinar vaxtaberandi skuldir við fjármálastofnanir og afborganir næsta árs af langtímalánum er kr. 0 Eftir athugasemdir frá sveitarfélaginu barst annað bréf þar sem ítrekað er að ekki eru um athugasemdir að ræða sem bregðast þurfi við. Óskað var eftir áliti endurskoðanda sveitarfélagsins á bréfunum.
Fram kemur í afgreiðslu bæjarráðs að ráðið velti því fyrir sér hver tilgangur nefndarinnar sé sem sendir sveitarfélagi bréf með ábendingum um að huga að skuldahlutfalli sem er ekki tilkomið af lántökum heldur lífeyrisskuldbindingum og þ.a.l. ógerlegt fyrir sveitarfélagið að bregðast við því. Þetta kallar óhjákvæmilega á spurningar um tilgang þessarar nefndar og hvers vegna hún sé að setja sér viðmið sem enga stoð eiga í lögum.
Í bókun frá Eyþóri Harðarsyni, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu segir að bréf eftirlitsnefndar sýni hve mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að haga rekstrinum með sjálfbærum hætti. Sveitarsjóður er ekki með vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir, en þrátt fyrir það erum við með 105% skuldaviðmið vegna lífeyrisskuldbindinga að stærstum hluta. Þetta segir okkur að lántökur myndu gera stöðuna enn alvarlegri gagnvart eftirlitsnefndinni og því mikilvægt að halda aftur af útgjöldum eins og hægt er til að halda rekstrinum í jafnvægi og innan viðmiða sem nefndin setur sér.
Í bókun Helgu Jóhönnu Harðardóttur og Jónu Sigríðar Guðmundsdóttur, fulltrúa E og H lista í bæjarráði segir að framsetning og túlkun fulltrúa D lista í bæjarráði á bréfi eftirlitsnefndar sé afar sérstök vitandi það að 77% af skuldbindingunum eru lífeyrisskuldbindingar. Engin lán hafa verið tekin hjá sveitarfélaginu síðan 2009 og eru engar vaxtaberandi skuldir hjá A-hluta við fjármálastofnanir. Engar lántökur eru fyrirhugaðar hjá sveitarfélaginu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025. Samkv. reglugerð nr. 502/2012 6. gr. skulu heildarskuldir og skuldbindingar A- og B- hluta i reikningsskilum ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldahlutfall A- og B-hluta er 68% sem er langt innan marka reglugerðarinnar Ábending eftirlitsnefndarinnar um að 100% skuldahlutfall A-hluta sé viðmið nefndarinnar en ekki í reglugerð og kemur það fram í bréfinu. Ekkert er á bakvið bréf eftirlitsnefndarinnar eins og fram kemur i minnisblaði endurskoðanda sveitarfélagsins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst