Kastaði af sér vatni á útidyrahurð
7. september, 2015
Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu þrátt fyrir að nokkur fjöldi fólks hafi verið hér í Eyjum um helgina, bæði í tengslum við Vestmanneyjahlaupið og ein þrjú árgangsmót sem haldin voru. Engin teljanleg útköll voru á öldurhúsin og fór skemmtanahald helgarinnar að mestu fram með ágætum.
Ein kæra liggur fyrir vegna brota á lögreglusamþykkt en þarna hafði manni orðið mál og kastaði af sér vatni á útidyrahurð. Var honum sagt að láta af þessum ósóma og gerð grein fyrir að hann fengi sekt vegna athæfisins.
Við eftirlit lögreglu á einu af öldurhúsum bæjarins urðu lögreglumenn varir við að þar inni var ungmenni undir 18 ára aldri og var ungmenninu í framhaldinu vísað út af staðnum. Forsvarsmaður veitingastaðarins á hins vegar von á kæru vegna þessa.
Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í vikunni en í báðum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og engin slys á fólki.
Ein kæra liggur fyrir vegna brota á umferðarlögum en um er að ræða brot á biðskyldu sem olli minniháttar umferðaróhappi.
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst