Í dag ganga Íslendingar til þingkosninga. Kjörfundur hófst víðast hvar klukkan níu í morgun. Í Vestmannaeyjum er hægt að kjósa í Barnaskólanum, inngangur um norður- og suðurdyr. Aðgengi fyrir fatlaða er um norðurdyr. Kjörfundur hófst kl. 9.00 í morgun og lýkur kl. 22.00 í kvöld.
Bænum er skipt með eftirfarandi hætti í tvær kjördeildir:
Í 1. kjördeild kjósa þeir, sem skráðir voru með lögheimili 29. október 2024 við Ásaveg til og með Hásteinsvegi auk þeirra sem eru óstaðsettir í hús og þeirra sem búa erlendis og njóta kosningaréttar á Íslandi.
Í 2. kjördeild kjósa þeir, sem skráðir voru með lögheimili 29. október 2024 við Hátún til og með Ægisgötu, auk þeirra, sem búa að Hraunbúðum og húsum, er bera bæjarnöfn.
Kjósandi sem ekki hefur meðferðis persónuskírteini, getur átt von á því að fá ekki að greiða atkvæði. Yfirkjörstjórn verður til húsa á kjörstað í Barnaskólanum í dag.
Þeir sem eru fjarri heimabyggðar eða fjarri sínum kjörfundi geta víða kosið utan kjörfundar. Frekari upplýsingar er að finna á vef sýslumanna á island.is. Þó nokkrir voru mættir á kjörstað klukkan 9 í morgun þegar kjörfundur hófst. Ljósmyndarar Eyjafrétta litu þar við klukkan 9.00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst