Kröfunni haldið til streitu
23. febrúar, 2024
thjodlenda_nordur_cr_min
Vinnuteikning óbyggðanefndar. Krafa ríkisins um þjóðlendumörk 2024 er merkt blátt á teikningunni. Alla teikninguna má sjá neðst í fréttinni.

Þjóðlendukröfur íslenska ríkisins í Vestmannaeyjar voru ræddar á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í gær.

Forsaga málsins er sú að fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. íslenska ríkisins, lýsti þann 2. febrúar sl. kröfum um lönd í Vestmannaeyjum. Samkvæmt kröfulýsingu er um að ræða hluta lands á Heimaey, úteyjar og sker. Óbyggðanefnd kallaði eftir kröfum frá ríkinu og koma þær fram í kröfulýsingu ríkisins. Nefndin kallar nú eftir kröfum frá þeim sem hafa öndverða hagsmuni við ríkið og skal skila skriflegum kröfum til nefndarinnar fyrir 15. maí nk.

Bæjarstjórn hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra opið bréf og mótmælt kröfulýsingunni. Bæjarráð hefur fundað með ráðherranum og komið sjónarmiðum Vestmannaeyjabæjar varðandi óréttmæti kröfugerðarinnar skýrt á framfæri. Ráðherra óskaði eftir að óbyggðanefnd myndi hefja málsmeðferð að nýju. Þeirri ósk hefur verið hafnað.

https://eyjar.net/obyggdanefnd-fellst-ekki-a-beidni-radherra/

Skora á ráðherra að draga kröfugerðina til baka

Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar segir að bæjarstjórn skori á fjármála- og efnahagsráðherra að draga til baka kröfugerðina á hendur Vestmannaeyjabæ.

Eignarhald Vestmannaeyjabæjar gagnvart heimalandinu og úteyjum í heild sinni er ótvírætt og stutt óyggjandi gögnum. Sérstök lög voru sett árið 1960 um sölu ríkisins á öllu landi í Vestmannaeyjum til Vestmannaeyjakaupstaðar. Á grundvelli laganna seldi ríkið Vestmannaeyjar í heild sinni til Vestmannaeyjabæjar og var gefið út afsal þar að lútandi og því þinglýst. Það er fráleitt að kröfugerð ríkisins nú byggist á því að véfengja heimildir sama ríkisvalds til að selja og afsala Vestmannaeyjabæ öllu landi í Vestmannaeyjum. Kröfulýsingin var unnin án samráðs eða upplýsingagjafar við stjórnendur sveitarfélagsins sem eru óásættanleg vinnubrögð.

Það er afar mikilvægt að þetta mál sé hafið yfir pólitískar þrætur og einvörðungu unnið með hagsmuni Eyjamanna að leiðarljósi.

Bæjarstjórn fer fram á að þingmenn kjördæmisins styðji það með ráðum og dáð að þessi óréttmæta kröfugerð ríkisins verði dregin til baka.

thjodlenda_krafa_rikis_vestm_eyjar

Tengdar fréttir

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst