Ari Eldjárn, uppistandari með meiru hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem afhent voru á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember sl. Sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu hlutu aðstandendur og þátttakendur í þróunarverkefninu Kveikjum neistann við Grunnskólann í Vestmannaeyjum.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin og við þeim tóku fyrir hönd GRV og Vestmannaeyjabæjar, Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri og Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar. Kynnir var Jakob Birgisson grínisti. GDRN og Vignir Snær fluttu lag og texta úr Málæði – íslenskuverkefni grunnskóla og Arnaldur Indriðason rithöfundur las úr bók sinni, Ferðalokum, sem byggir á ævi Jónasar Hallgrímssonar.
Um verkefnið segir dómnefnd að síðan því var hleypt af stokkunum árið 2021 hafi það skilað eftirtektarverðum árangri bæði hvað varðar bætta líðan nemenda en líka færni í lestri. Viðurkenningin var afhent á degi íslenskar tungu sem haldinn er hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert.
Stór og merkileg viðurkenning
Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum hefur litla umfjöllun fengið þrátt fyrir ótrúlegan árangur nemenda miðað við það sem almennt gerist á Íslandi. Verkefnið er til tíu ára og er stutt af Vestmannaeyjabæ, menntamálaráðuneytinu, Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins. Einn af áhugaverðustu þáttum verkefnisins er hvernig það samþættir áherslur í lestri, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og áhugahvöt. Lykillinn að góðum árangri nemenda í lestri þakka aðstandendur reglulegu stöðumati, eftirfylgni, markvissri þjálfun og áskorunum miðað við færni.
„Þetta er mjög stór og merkileg viðurkenning og ekki á hverjum degi sem skóli hér fær svona flott verðlaun. Þetta hefur tekist með samvinnu skólans og bæjarstjórnar og ekki má gleyma samstilltu átaki nemenda og góðum kennurum,“ sagði Anna Rós við Eyjafréttir. „Vert er að nefna gríðarlega mikilvægt hlutverk foreldra í námi barna sinna og góðu samstarfi heimila og skóla. Foreldrar eiga sinn þátt í þessum frábæra árangri. Við erum ofboðslega stolt af þessari viðurkenningu. Hún hvetur okkur til að halda áfram því öfluga starfi sem á sér stað í skólanum okkar. Til hamingju við,“ sagði Anna Rós.
Einstakur árangur
Og tölurnar tala sínu máli. Allir nemendur í fyrsta bekk sem hófu nám haustið 2021 gátu lesið orð í lok skólaárs en 73% í samanburðarhópi sem í voru 365 norsk börn. Árið eftir í öðrum bekk, vorið 2023 gátu 83% þeirra lesið texta sem hæfði aldri þeirra á móti 52% í samanburðarhópi 498 barna í 20 skólum á Íslandi. Í þriðja bekk, 2023 til 2024 gat 91% þeirra lesið texta sem hæfði aldri þeirra en 64% í í samanburðarhópi 401 barns í 15 skólum á Íslandi.
Og tölurnar tala sínu máli:
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst