Í lok júlí voru opnuð tilboð í vetrardýpkun í Landeyjahöfn en tilboðin voru opnuð í húsakynnum Siglingastofnunar. Þrjú fyrirtæki buðu í dýpkunina. Björgun ehf. bauð lægst, rúma 571 milljón og auk þess frávikstilboð upp á rúmar 295 milljónir. Næstlægsta tilboðið átti danska fyrirtækið Rohde Nielsen eða rétt rúmar 590 milljónir. Íslenska Gámafélagið bauð svo rúmar 596 milljónir í verkið og frávikstilboð upp á 744 milljónir. Kostnaðaráætlun Siglingastofnunar var upp á 360 milljónir, eða rúmum 211 milljón krónum lægra en lægsta tilboðið.