Nýr kafli í atvinnusögu Vestmannaeyja var skráður í dag þegar fyrsta skóflustungan var tekin í Viðlagafjöru þar sem Icelandic Land Farm Salmon (ILFS) er að hefja framkvæmdir við laxeldisstöð. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir ríflega tíu þúsund tonna framleiðslu á ári. Fjölmenni var við athöfnina sem fram fór í góðu veðri.
„Ég vil tileinka þessa stund Matthíasi Sveinssyni, vélstjóra og frænda mínum en við störfuðum saman í 50 til 60 ár á sjó og í landi og öllu fólkinu sem hefur starfað með mér í gegnum tíðina,“ sagði Sigurjón Óskarsson, skipstjóri og útgerðarmaður þegar hann tók fyrstu skóflustunguna.
„Nú erum við á svæði sem var ekki til fyrir 50 árum. Hver hefði trúað því að nú værum við að fara í fiskeldi á þessum sama stað,“ sagði Sigurjón og vísaði til Heimaeyjargossins 1973 þegar hraun rann í sjó og Viðlagafjara varð til. „Ég vil þakka Daða Páls, Hallgrími Steinssyni og Lárusi Ásgeirssyni fyrir þetta framtak og ekki síður Írisi Róbertsdóttur og bæjarstjórninni allri fyrir að standa með okkur,“ sagði Sigurjón.
Sigurjón og fjölskylda standa að baki verkefninu og um leið og nýr kafli hefst í atvinnusögu Vestmannaeyja lýkur öðrum. Sigurjón og hans fólk hefur selt Vinnslustöðinni útgerðina Ós sem gerir út togarann Þórunni Sveinsdóttur VE og fiskvinnsluna Leo Seafood.
Útgerðarsaga fjölskyldunnar hófst þegar Óskar Matthíasson keypti Nönnu VE 1946, síðar Leó VE 400 og Þórunni Sveinsdóttur VE 401. Er núverandi Þórunn sú þriðja í röðinni. Hafa þeir feðgar, Óskar, Matthías, Sigurjón og Kristján allir verið bæði farsælir skipstjórar og aflamenn.
Mynd; Sigurjón tekur fyrstu skóflustunguna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst