Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég grein sem bar heitið Laxey, kafli 2: Hrognin koma. Það var sérstakur tími í sögu fyrirtækisins. Þá var hafin mikil og hröð uppbygging, hrognin táknuðu að ekki aðeins væri verið að reisa mannvirki, heldur hafði lífmassi komist í seiðastöðina og framleiðsla var hafin.
Nú eru aftur komin tímamót hjá Laxey, við erum að hefja nýjan kafla í sögu fyrirtækisins. Landeldi er hafið og spennandi tímar eru framundan hjá þessu ört stækkandi félagi. Í upphafi árs störfuðu 20 manns hjá fyrirtækinu en nú eru starfsmenn orðnir 49 og fyrirséð er að þeim fjölgi enn frekar á næstu misserum. Laxey mun halda áfram að stækka og fleiri kaflar munu skrifast í sögu fyrirtækisins.
Í nóvember á þessu ári náðist einn af mikilvægustu áföngum í sögu fyrirtækisins: flutningur seiða frá seiðastöðinni yfir í áframeldi í Viðlagafjöru. Þetta er það sem stefnt hefur verið að frá því hrognin komu fyrir ári síðan.
Fyrsta skóflustungan í Viðlagafjöru var tekin í febrúar 2023 og vinna við fyrstu bygginguna hófst í október sama ár. Fiskeldiskerin í stórseiðabyggingunni voru reist um mánaðamótin febrúar/mars á þessu ári. Nú, aðeins átta mánuðum síðar, eru seiðin komin í þangað og landeldi formlega hafið.
Til að tryggja farsælan flutning þurfti allt að ganga upp. Ekki aðeins framkvæmdirnar sjálfar, heldur þurfti allur tæknibúnaður að vera uppsettur, gangsettur og prófaður. Þetta er til marks um frábæra stjórn, skipulag og fagmennsku hjá teyminu okkar, sem á hrós skilið fyrir vel unnið verk.
Árið sem nú er að ljúka hefur sannarlega verið ár fjölmargra tímamóta fyrir Laxey. Margar tilkynningar frá félaginu hafa hafist á orðinu „fyrsti“ eða haft það í efni sínu, enda erum við á vegferð þar sem nýjungar og uppbygging halda áfram með stöðugum vexti.
Við erum afar þakklát fyrir stuðning samfélagsins og þann áhuga sem þið hafið sýnt okkur. Kraftur samfélagsins er okkur ómetanleg hvatning. Þegar við fáum gesti, bæði erlenda og frá fastalandinu, kemur það alltaf skýrt fram hversu mikilvægur stuðningur samfélagsins er fyrir velgengni og uppbyggingu félagsins.
Áhugi og stuðningur nær samfélagsins er stór þáttur af því sem við höfum náð að áorka hingað til. Fyrir það sem liðið er viljum við þakka ykkur af heilum hug. Við munum halda áfram að upplýsa ykkur um framgang okkar því á næstu árum munu fleiri tímamótafréttir líta dagsins ljós.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Óskar Jósúason
Höfundur er upplýsingafulltrúi Laxey.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst