Togararnir Vestmannaey VE og Bergur VE liggja báðir í höfn í Eyjum vegna veðurs. Vestmannaey kom til hafnar á föstudag eftir að hafa verið í rúman sólarhring að veiðum. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri segir í samtali við Síldarvinnsluvefinn að ekkert annað væri að gera en að taka því rólega, „Það er bölvuð ótíð og ég geri varla ráð fyrir að unnt verði að komast á sjó fyrr en á fimmtudagskvöld eða á föstudag. Við erum ósköp rólegir enda byrjar engin vertíð hér af krafti fyrr en loðna lætur sjá sig og það verður varla fyrr en seinni part mánaðarins,” sagði Birgir Þór.
Bergur kom til Eyja á laugardag og var landað úr honum í gær. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að fiskað hafi verið fyrir austan land. „Við fórum frá Neskaupstað og hófum veiðar á Breiðdalsgrunni og síðan var farið í Hvalbakshallið. Þarna var ágæt veiði; mest þorskur með dálítilli ýsu á nóttunni og mest ýsa með dálitlum þorski á daginn. Á meðan við vorum þarna var veður ekki slæmt, svona kaldaskítur. Nú er hins vegar komin hörkubræla og vonsku sjólag. Gert er ráð fyrir að mögulegt verði að halda til veiða á ný á fimmtudag og ekki er ólíklegt að farið verði austur fyrir landið á ný,” sagði Jón.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst