Staðan á biðlista leikskóla var rædd á fundi fræðsluráðs í vikunni en 10 börn, fædd árið 2020, eru á biðlista auk 15 barna sem fædd eru árið 2021. Þá eru tvö eldri börn sem bíða eftir flutningi milli leikskóla. Eins og staðan er núna er fullt á Sóla og staðan um áramót óljós. Verið er að opna fimmtu deildina á Kirkjugerði og hafa öll börn 12 mánaða og eldri, sem hafa verið á bið eftir Kirkjugerði, fengið vistun þar. Áætlað er að taka næst inn á Kirkjugerði um áramót en að öðru leyti hefur ekki verið tekin ákvörðun um framhaldið.
Fram kemur í niðurstöðu um malið að ráðið leggur áherslu á að leitað verði allra leiða til að tryggja börnum leikskólavist sem fyrst eftir að þau ná 12 mánaða aldri. Fræðslufulltrúa er falið að fara yfir stöðuna með leikskólastjórum með þetta í huga og framkvæmdastjóra falið að gera ráð fyrir aukakostnaði sem þetta kann að leiða af sér í fjárhagsáætlun.
Vestmannaeyjabær sendi frá sér tilkynningu eftir fundinn þar sem fram kemur að ekki séu 25 börn á biðlista eftir leikskóla. Í fundargerðum fræðsluráðs hafa öll skráð börn verið sögð á biðlista hvort sem þau hafa náð aldri til að hefja leikskólagöngu eða ekki, sem getur verið villandi. Eðlilegast er að telja þau börn á biðlista sem hafa náð aldri til að hefja leikskólagöngu en stendur ekki til boða leikskólapláss þar sem leikskólarnir eru fullsetnir.
Eins og staðan er í dag eru 10 börn, fædd 2020, á skrá eftir leikskólaplássi og þar af eru þrjú sem hafa náð 12 mánaða aldri. Þeim stendur til boða leikskólapláss en foreldrar/forráðamenn taka ákvörðun um hvort þeir þiggja pláss sem er í boði eða kjósa að bíða. Þá eru 15 börn, fædd 2021, á skrá.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst