B-lið ÍBV er komið í 16-liða úrslit Eimskipsbikarkeppninnar en liðið lagði Spyrni úr Fjarðabyggð að velli í Eyjum í dag. Lokatölur urðu 49:29 en yfirburðir Eyjamanna voru talsverðir. Lið ÍBV var skipað reynslumiklum mönnum eins og Svavari Vignissyni, Guðfinni Kristmannssyni, Björgvini Rúnarssyni, Daða Pálssyni og Erlingi Richardssyni. Með þeim voru svo nokkrir minni spámenn eins og Elliði Vignisson, bæjarstjóri og Þórarinn Ingi Valdimarsson, knattspyrnukappi. Bæjarstjórinn gerði sér þó lítið fyrir og skoraði 10 mörk en bróðir hans, Svavar hafði betur í keppni bræðranna og skoraði 11.