Strax í gær byrjuðu þær útgerðir sem eiga loðnukvóta að undirbúa skip til brottfarar á loðnumiðin. Hafrannsóknastofnun ráðlagði veiðar á 8589 tonnum, en af þeim tonnum verður 4.683 tonn til skiptana til íslenskra skipa. Útgerðirnar í Eyjum eru í óðaönn að undirbúa veiðarnar.
Í færslu á facebook-síðu Ísfélagsins í dag segir að eðlilega hafi kurrað í uppsjávarsviði félagsins við fréttirnar. „Áætlað er að Ísfélagið fái um 1.000 tonn af úthlutuðum kvóta. Heimaey og Sigurður eru að gera klárt til veiða, loðnunæturnar á leið um borð og áætluð brottför til loðnuveiða er í fyrramálið. Áætlað er að frysta hrygnuna fyrir Japansmarkað og hænginn fyrir markað í Austur-Evrópu.” segir í færslunni.
Á vef Vinnslustöðvarinnar er haft eftir Sindra Viðarssyni, sviðsstjóra uppsjávarsviðs að verið sé að græja Gullberg VE til veiða og leggja þeir líklega í hann í nótt eða í fyrramálið.
,,Við fengum fréttir af loðnu í upphafi vikunnar utan við Þorlákshöfn, það er spurning hvað sú loðna er komin langt vestur eftir. Einnig er spurning um hvernig ástandið er á henni þ.e.a.s. hrognafylling, hrognaþroski, hrygnuhlutfall og fleira. Síðan vitum við af loðnu norður af Horni sem Árni Friðriksson mældi í síðustu viku, spurning hvernig ástandið er á henni.” segir Sindri og bætir við að við séum komin ansi seint inn í vertíðina upp á að heilfrysta loðnu. ,,Þannig að við höfum ekki marga daga í viðbót allavega hvað varðar loðnuna sem er við Reykjanesið. Þetta stefnir í spennandi helgi,” segir Sindri. Hér má sjá alla umfjöllun VSV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst