Loðnuleit hefur engan árangur borið enn sem komið er. Vika er nú liðin síðan skip Hafrannsóknarstofnunar, Árni Friðriksson, hélt úr höfn í Reykjavík til leitar. Skipið er nú út af Vestfjörðum en þar er vonskuveður og ekki hægt að leita. Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri segir þó allt of snemmt að örvænta enda sé aðeins búið að fara yfir tiltölulega lítið svæði og ekki á þeim slóðum þar sem líklegast er að loðnan haldi sig.