Loðnuvertíð er komin í fullan gang. Gott veður er á miðunum og útlit fyrir að það haldist fram í miðja næstu viku. Loðnuskipin streyma inn til Vestmannaeyja og vinnsla komin á fullt hjá bæði Ísfélagi og Vinnslustöð. Skipin er að veiðum út af Suðausturlandi og grunnt undan Suðurlandi.
„Við byrjuðum á þriðjudaginn að veiða austan við Ingólfshöfða,“ sagði Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins í morgun. „Sigurður kom með rúm 500 tonn og Heimaey er núna að landa rúmum 1000 tonnum til frystingar í Eyjum. Suðurey fékk 780 tonn í gær og er að koma til Þórshafnar þar sem farmurinn verður að mestu frystur. Álsey og Sigurður eru á miðunum í dag og er loðnan að skríða inní Bugtina vestan við Ingólfshöfða.
Hrognafyllingin er í dag um 15% og loðnan núna að verða hæf til Japansfrystingar eins og það er orðað. Framundan er spennandi tími þar sem margt þarf að ganga upp til að verðmætin komi í hús. Vonandi er nýjasti áhættuþátturinn sem er orkuflutningurinn til Eyja að ganga upp með þeim aðgerðum sem HS Veitur og Landsnet eru að vinna að,“ sagði Eyþór.
Það var svipaður tónn í Sindra Viðarssyni, sem stýrir uppsjávarsviði Vinnslustövarinnar. Þeir fengu fyrstu loðnuna á miðvikudaginn þegar Ísleifur kom með 380 tonn af góðri loðnu. Strax var byrjað að frysta í uppsjávarhúsi Vinnslustöðvarinnar þar sem allt er komið á fullt. „Núna erum við að vinna úr Gullbergi og Huginn er á landleið. Þannig að þetta fer bara nokkuð vel af stað,“ sagði Sindri.
Það fylgir því ákveðin stemning þegar loðnuvertíð hefst. Þau eru að taka móti fyrstu loðnunni hjá Vinnslustöðinni á þessari vertíð.
Mynd Addi í London.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst