Starf lögreglunnar er fjölbreytt og má með sanni segja að engir tveir dagar eru eins. Fjölbreytileiki í starfi lögreglumannsins getur verið allt frá eftirliti í umferð til stærri aðgerða þar sem rannsaka þarf vettvang ítarlega.
Lögreglumenn eru sífellt að nema í starfi sínu og verður það seint talið að lögreglumenn geta orðið fullnuma í starfi sínu en með því háskólanámi sem í boði er hjá Háskólanum á Akureyri hefur verið myndaður farvegur til að styrkja það nám sem áður var kennt við Lögregluskóla ríkisins með því að fræða nemendur á Háskóla stigi. Þannig fá nemendur að læra inn á starfið með því að horfa á það út frá fræðunum. Námið er byggt upp þannig að lögfræði, félagsfræði og lögreglufræði fá ákveðinn samhljóm sem eflir lögreglumenn í því að móta starf þeirra út frá lögum, félagslegum tengslum og góðum samskiptum sem lögreglumenn nýta þá í starfi sínu til að geta átt auðveldara með að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu.
Með þessa þekkingu að leiðarljósi finnur borgarinn og samfélagið allt hvernig lögreglan er traust stofnun sem vekur öryggi borgaranna.
Ég hóf nám í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn við Háskólann á Akureyri haustið 2018. Námið þar var bæði lærdómsríkt og fræðandi en á þeim tíma var ég starfandi sem héraðslögreglumaður við lögregluembættið á Suðurlandi og efldi námið starf mitt töluvert.
Ég hef ávallt talið starf lögreglumanna vera áhugavert, virðingarvert og spennandi. Áður en ég hóf störf sem lögreglumaður hafði ég aðallega unnið með börnum og ungmennum bæði í skóla- og frístundarstarfi. Þegar mig langaði að skipta alveg um starfsvettvang var ég hvattur til að reyna fyrir mér í löggæslustarfi, lá starfið máske fyrir mér þar sem faðir minn og bróðir höfðu báðir starfað innan þess geira.
Eins og ég skrifaði hér að ofan þá er starfið fjölbreytt en ekki síður er það skemmtilegt og tel ég að starfið þroski þann sem starfar sem lögreglumaður. Ekki bara sem starfskraft heldur einnig sem manneskju. Innan lögreglunnar gefst nefnilega farvegur til að eiga í samskiptum við borgaranna og mynda tengsl innan þess samfélags sem maður starfar í.
Ég vil því hvetja alla sem náð hafa 20 ára aldri til að sækja um til að starfa í lögreglunni því slík reynsla göfgar manninn í samskiptum, virðingu og í að kynnast sínu nær umhverfi og því frábæra fólki sem þar býr.
Allir þeir sem ég hef starfað með innan lögreglunnar og hafa ekki hlotið menntun hafa alltaf á einhverjum tímapunkti tjáð mér að þeir myndu vilja mennta sig í lögreglufræðum og að ástæðan sé ávallt sú að starfið sé fjölbreytt og skemmtilegt. Ekki skemmir fyrir að maður fær tækifæri til að kynnast fólki í sínu samfélagi og fær að hjálpa öðrum.
Ég vil því hvetja þig sem hefur áhuga á að starfa sem lögreglumaður að sækja um í lögreglufræðum fyrir verðandi lögreglumenn hjá Háskólanum á Akureyri og öðlast innsýn inn í það göfuga starf sem lögreglumenn sinna.
Opið er fyrir umsóknir í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri til 31. mars. Kynntu þér málið á www.menntaseturlogreglu.is
Símon Geir Geirsson,
lögreglumaður hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst