Á fundi bæjarstjórnar á þriðjudaginn voru rædd ljósleiðaramál í Vestmannaeyjum. Fram kom að á fundi bæjarráðs hefðu framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og yfirmaður tölvudeildar gert grein fyrir undirbúningi ljósleiðaravæðingu í þéttbýli Vestmannaeyja. Tillaga um undirbúning einkahlutafélags um ljósleiðaravæðinguna var samþykkt samhljóða með atkvæðum allra flokka í bæjarstjórn.
Í samantekt starfsmanna var að finna frumkostnaðaráætlun, upplýsingar um félagaform, fjármögnun og framkvæmdatíma verksins. Gert er ráð fyrir ljósleiðaratengingu við öll heimili, fyrirtæki og stofnanir ásamt spennistöðvum, dæluhúsum o.s.frv. Ekki er gert ráð fyrir lögnum innanhúss. Eins og fram kemur í fundargerð hefur ekki farið fram útboð á verkinu og því liggja nákvæmar upplýsingar um kostnað ekki fyrir, en ekki er ólíklegt að kostnaður við svo viðamikið verk hlaupi á bilinu 400-600 m.kr. Þrenns konar félagaform koma til greina í tengslum við rekstur kerfisins. Í samantektinni kemur fram að í miðað við umfang rekstursins þá fer best á því að reka félagið í sérstöku einkahlutafélagi.
Framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, yfirmanni tölvudeildar og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, var falið á fundinum að ljúka við undirbúning á einkahlutafélagi um ljósleiðaravæðingu í þéttbýli og vinna drög að stofnsamþykktum félagsins. Einnig fól bæjarstjórn hópnum að koma á samtali við þá einkaaðila sem sýnt hafa áhuga á að taka þátt í félaginu og ljósleiðarvæðingunni. Samþykkt tillaga um verktíma miðast við að framkvæmdum ljúki á fyrri hluta ársins 2024. Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar 2022 mun taka mið af fjármögnun verkefnisins.
Þess má geta að í lok ársins 2020 fór framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja fyrir útboðsgögn sem lágu fyrir vegna ljósleiðaravæðingu í dreifbýli sveitarfélagsins. Það verkefni var unnið í tengslum við átakið “Ísland ljóstengt” sem var tímabundið verk með aðstoð ríkisins. Eyjafréttir fjölluðu um málið á sínum tíma.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst