Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni Vinnslustöðvarinnar hf. um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar frá 7. nóvember sl. um skaðabætur vegna svokallaðs makrílmáls. Ríkið óskaði jafnframt eftir leyfi til að áfrýja dómi í sambærilegu máli Hugins og samþykkti Hæstiréttur einnig þá beiðni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar.
Þar segir jafnframt að forsaga málsins sé sú að með dómum Hæstaréttar 6. desember 2018 hafi verið viðurkennd skaðabótaskylda ríkisins gagnvart Vinnslustöðinni annars vegar og Hugins hins vegar. Dómar hafa gengið í héraði og í Landsrétti um fjárhæð skaðabóta. Landsréttur staðfesti dóm Hugins í héraði en lækkaði bætur Vinnslustöðvarinnar.
Fram kemur í ákvörðuninni að Hæstiréttur telji að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um sönnunarfærslu og ákvörðun fjártjóns og var beiðnin því samþykkt, segir að endingu í tilkynningunni.
Vinnslustöðinni voru dæmdar um 515 milljónir kr. í bætur auk vaxta og dráttarvaxta í héraðsdómi en Landsréttur lækkaði bæturnar niður í 269,5 milljónir. Í dómi Landsréttar er kveðið á um að kröfur vegna áranna 2011 og 2012 væru fyrndar. Af þeim sökum voru bætur til Vinnslustöðvarinnar lækkaðar og verða 269,5 milljónir króna í stað 515,2 millljóna. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hugins er hins vegar staðfestur af Landsrétti og nema bætur til þess fyrirtækis 467 milljónum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst