„Við hjónin undirrituðum nýlega samning við Vestmannaeyjabæ um að allt efni Eyjatónleikanna yrði falið Sagnheimum til varðveislu. Síðan var ákveðið að við myndum afhenda það formlega á safnahelginni og halda um leið smá erindi um sögu tónleikanna og veita innsýn í það sem við erum að fela safninu til varðveislu.” segir Bjarni Ólafur Guðmundsson en hann og eiginkona hans Guðrún Mary Ólafsdóttir afhentu Vestmannaeyjabæ í gær allt efnið auk þess sem Bjarni Ólafur sagði sögu tónleikanna í máli og myndum.
„Í vor var ég beðinn um að koma á fund hjá Akóges og fara þar yfir sögu Eyjatónleikanna. Það tókst með ágætum og góður rómur gerður að þessu og við ákváðum hreinlega að gera þetta með líkum hætti í dag. Þegar við vorum að undirbúa þann fyrirlestur, áttuðum við okkur á hversu mikið efni við höfum framleitt og hve margar sögur hafa verið sagðar, fyrir utan allar myndirnar sem Óskar Pétur hefur tekið á tónleikunum, en hann hefur komið á alla nema eina og þar að auki hefur Addi í London og fleiri ljósmyndarar tekið myndir á tónleikunum og verið okkur innan handar með myndefni í sögur og myndbönd. Þá má ekki gleyma þætti Hvata, Sæþórs Vídó, Gunna Júl og fleiri, sem hafa unnið þetta verkefni með okkur.” segir hann.
Bjarni Ólafur segir að á þessum þrettán árum sem liðin eru hafi þau útbúið yfir 40 póstkort (myndbönd og sögur) um Eyjarnar og Eyjamenn og þar að auki sagt margar sögur í dagskrám tónleikanna fyrir utan að gefa tónleikana út á DVD og CD (fyrstu árin) og setja þá í streymi hin síðari ár.
„Þetta er mikill fjársjóður og því mikilvægt, eins og Kári [Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss] kom inn á í sinni kynningu, að varðveita þetta á safninu. Einnig þótti okkur afar vænt um hlý orð Írisar bæjarstjóra í okkar garð og finna frá henni og öllum öðrum hversu mikilvægt þetta verkefni er og hvað það snertir í raun viðkvæma strengi enn þann dag í dag, þegar við horfum á þetta efni.”
Bjarni Ólafur segir að þau hjón vilji ítreka þakkir þeirra til bæjarins fyrir stuðninginn, en ekki síður fyir viðurkenninguna á verkefninu. „Einnig viljum við þakka fyrirtækjum og einstaklingum stuðninginn í gegnum tíðina, sérstaklega þökkum við Miðstöðinni, Vinnslustöðinni, Kapp, Ölgerðinni, Skipalyftunni, Herjólfi og Vestmannaeyjabæ fyrir veittan stuðning,” segir Bjarni Ólafur og minnir að endingu á að næstu tónleikar verði þann 25.janúar næstkomandi, og er frábær jólagjöf fyrir alla.
Tölulegar staðreyndir:
13 tónleikar
Yfir 40 myndbönd
Yfir 180 Eyjamenn komið að verkefninu
44 söngvarar aðrir en Eyjafólk (margir komið oft)
Yfir 130 lög flutt á tónleikunum (samtals fel á fjórða hundraðið, því mörg laganna hafa oft verið flutt)
Aðeins 16 lög flutt sem við kennum ekki við Eyjar
Að meðaltali um 24 lög flutt á hverjum tónleikum
Fernir tónleikar sýndir í sjónvarpi og eru enn sýndir af og til
Tvennir tónleikar gefnir út á DVD og CD
Einir gefnir út á CD
Allir tónleikar teknir upp (hljóðið)
Fleiri tónleikar til í hljóð og mynd sem ekki hafa verið gefnir út.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst