Norðmenn fundu töluvert minna af makríl í uppsjávarleiðangri sínum en í fyrra. Norðmenn voru með tvö skip sem dekkuðu svæðið milli Noregs og Íslands, allt norður undir Svalbarða og suður til Færeyja. Fiskifréttir greindu frá þessu í morgun.
Mest fannst sunnarlega í Noregshafi en yngri makríll hélt sig í Norðursjó, að því er segir á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar. Dreifingin náði yfir stærra svæði „en veiðin varð töluvert minni á svæðinu en í fyrra,“ skrifar Leif Nøttestad, leiðangursstjóri.
Slæmt veður var á svæðinu framan af, sem tafði leiðangurinn og Nøttestad segir mögulegt að þess vegna hafi makríllinn síður fundist. Ekkert benti til þess að makríllinn hafi haldið norður í Barentshaf þetta árið.
Uppsjávarleiðangur sumarsins er samstarfsverkefni hafrannsóknastofnana Íslands, Noregs, Færeyja, Danmerkur. Íslendingar fundu töluvert af makríl fyrir austan land, en hann var mjög dreifður, þéttleikinn lítill. Þetta er í samræmi við reynslu íslensku fiskiskipanna sem hafa átt erfitt með að finna makríl í nokkru magni innan íslensku landhelginnar þetta árið.
Að venju verður unnið úr upplýsingum leiðangursins þriðju vikuna í ágúst og niðurstöður ásamt nýju stofnmati kynntar í lok mánaðarins. Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins verður svo birt 30. september.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst