Eyjakonan Annika Vignisdóttir hafði búið í Kópavogi í 15 ár þegar hún flutti með fjölskylduna heim til Vestmannaeyja síðasta ári og sér ekki eftir því. Það sama gildir um eiginmanninn og peyjana tvo, öll eru þau himinsæl að vera komin.
Eiginmaðurinn er Sigurður Georg Óskarsson, barnabarn Sigga Gogga skipstjóra og Fríðu Einarsdóttur, sonur Sigurbáru dóttur þeirra. Tengslin við Eyjar voru því til staðar. Bæði eiga fjölskyldu hér, hún dóttir Önnu Dóru á Hressó og Vignis Sigurðssonar vélstjóra. „Ég er um tvítugt þegar ég flutti í Kópavoginn og er þar í 15 ár. Fer í skóla lærði förðunarnám, tek svo B.sc í sálfræði og master í markaðsfræðum. Vann að markaðsmálum í snyrtivörugeiranum áður en við fluttum. Siggi er véla- og orkutæknifræðingur og honum var boðin vinna hjá Laxey og er að vinna þar sem yfirverkstjóri framkvæmda,“ segir Annika
Hún kynntist Sigurði, þau rugla saman reitum og eiga í dag strákana Leó níu ára og Vigni fjögurra ára. Leó er í Grunnskólanum og Vignir á leikskólanum Kirkjugerði. „Hér höfum við búið í eitt ár í ágúst,“ segir Annika sem í fyrstu var ekki hrifin af hugmyndinni að flytja heim. „Siggi var með þetta á bak við eyrað, að flytja hingað en ég var ekki viss. Svo býðst honum þessi vinna, var spenntur og bað mig um flytja. Það þurfti talsvert til, var orðin vön að búa á höfuðborgarsvæðinu. Inni í okkar búbblu og tók okkur hálft ár að ákveða að flytja heim. Mér fannst ákvörðunin erfið, kveið fyrir en við sjáum ekki eftir því í dag,“ segir Annika sem varð að hætta í sinni vinnu í markaðsmálunum en lærði að gera neglur og bætti því við förðunina og hefur nóg að gera. Tekur svo eina og eina vakt á Hressó.
Margt breyst til hins betra
Annika segir margt hafa breyst á þessum 15 árum. „Komið ótrúlega mikið af nýju fólki, þekkjum auðvitað marga og eigum stóran hóp af vinum en þar fyrir utan eru margir á okkar aldri sem við þekktum ekki fyrir. Menningin er líka allt önnur og öflugri. Flottir veitingastaðir og allskonar skemmtilegar uppákomur,“ segir Annika og þau eru sátt.
„Við fundum eftir að við fluttum hvað streitan er mikil á höfuðborgarsvæðinu. Hún minnkaði, við sofum betur, allt rólegra og þægilegra. Þetta einfaldar mjög lífið með tvö börn. Siggi ánægður í vinnunni og bæði eigum við sterkar fjölskyldur í Eyjum sem líka skiptir máli. Leó eldri sonur okkar var ekki alveg viss með þetta í upphafi, en það breyttist fljótt. Er ánægður í skólanum, á fullu í fótbolta, handbolta og golfi og eignaðist strax mikið af góðum vinum. Vignir pældi lítið í þessu, mætti í leikskólann, ný andlit skiptu hann engu máli,“ sagði Annika að endingu.
Mynd: Fjölskyldan á Þjóðhátíð, Annika, Sigurður og peyjarnir Leó og Vignir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst