Hækkanir á gjaldskrá HS Veitna hafa verið í hámæli í Eyjum undanfarna daga. Eyjar.net hefur gert málinu góð skil og mun halda því áfram í næstu viku.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri gerir málið að umtalsefni á facebook-síðu sinni í dag.
Þar segir hún að bæjarráð Vestmannaeyja hafi mótmælt harðlega hækkunum á húshitunarkostnaði í Eyjum og óskað eftir skýringum hjá HS-veitum, Orkustofnun og orkumálaráðuneytinu.
Varmadælustöðin virðist alls ekki skila neinni lækkun
„HS- veitur hafa sérleyfi og við íbúar getum bara skipt við það fyrirtæki þegar við kaupum varmaorku til húshitunar. Það er umhugsunar efni að varmadælustöðin virðist alls ekki skila neinni lækkun á gjaldskrá eins og lagt var upp með að hún ætti að gera.
Gríðarmiklar hækkanir hafa verið síðan í september, eða um 30% þegar allt er tekið með.
Á fundi núna í vikunni með fulltrúum Orkustofnunar fékkst staðfest að orkumálaráðherra hefur lagt til, og það verið samþykkt, að auka niðurgreiðslu til íbúa í Vestmannaeyjum vegna húshitunar. Niðurgreiðslan var 147,80 kr./m³ en hækkaði í 158,74 kr./m³ 1. september 2023 og aftur í 201,06 kr./m³ frá 1. janúar 2024.Fyrri hækkun niðurgreiðslna átti að koma fram á reikningum frá 1. september vegna hækkunar HS-veitna, en skilaði sé einhverra hluta vegna ekki til notanda. Orkustofnun upplýsti að þessi hækkun á niðurgreiðslum fyrir þessa mánuði myndi skila sér að fullu á næstu reikningum HS- veitna. Síðasta hækkun niðurgreiðslunnar á að koma inn á reikninga frá 1. janúar 2024.
Staðan er því sú að ríkið hefur hækkað sína niðurgreiðslu frá 1. september um 27 % til að mæta hækkunum HS-Veitna á gjaldskrá til húshitunar í Vestmannaeyjum. Þetta mun skila sér til íbúa á næstu reikningum og því milda mjög þær hækkanir sem hafa verið á gjaldskrá HS-veitna.
Bæjarráð Vestmannaeyja og aðrir kjörnir fulltrúar leggja sig alltaf fram fyrir íbúa Vestmannaeyja í öllum málum.“
segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.
https://eyjar.net/rumlega-30-haekkun/
https://eyjar.net/haerra-verd-og-minni-hiti/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst