Nýlega var ný brú yfir Ölfusá kynnt á Hótel Selfossi. Verkefnið felur í sér færslu Hringvegar norður fyrir Selfoss með byggingu nýrrar brúar á Ölfusá við Efri Laugardælaeyju. Framkvæmdin verður fjármögnuð með veggjöldum, líklega á bilinu 300 til 450 krónur. Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra í Fréttablaðinu að óumflýjanlegt sé að vegagerð verði fjármögnuð með almennum notkunargjöldum í stað eldsneytisgjalda.
Nýr Hringvegur er 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum sem mögulegt er að breikka í 2+2 veg síðar. Nýr vegur tengist hringtorgi við Biskupstungnabraut sem nú er í byggingu og er 1,6 km langur vestan Ölfusár. Brú á Ölfusá er 330 m löng stagbrú með turni á Efri-Laugardælaeyju, veglína austan Ölfusár er um 1,7 km löng og fer um Svarfhólsvöll og tengist núverandi Hringvegi austan þéttbýlis á Selfossi. Heildarlengd nýs Hringvegar er um 3,7 km. Auk Hringvegar þarf að leggja nýjan Laugardælaveg auk tenginga við Gaulverjabæjarveg og Austurveg á Selfossi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst