„Vinnslustöðin var alltaf fyrsti kostur sem vinnustaður enda var ég í góðu sambandi við hana á námstímanum og lokaverkefnið tengdist fyrirtækinu,“ segir Dagur Arnarsson, nýútskrifaður úr sjávarútvegs- og viðskiptafræðum frá Háskólanum á Akureyri og nú fastráðinn starfsmaður VSV.
Annar nýútskrifaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri, Hallgrímur Þórðarson, er líka kominn í fast starf hjá Vinnslustöðinni. Þeir félagar eiga líka sameiginlegt að vera gegnheilir Eyjamenn, hafa báðir unnið hjá Vinnslustöðinni eða dótturfélögum hennar undanfarin ár og báðir útskrifuðust með lokaverkefni tengd Vinnslustöðinni.
Hallgrímur nam sjávarútvegsfræðin í fjarnámi frá Eyjum og vann jafnframt á netaverkstæði og á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar. Hann starfar núna á skrifstofunni.
Dagur hefur gengið í margvísleg störf í Vinnslustöðinni og Hafnareyri en er núna hjá Iðunni Seafoods ehf. sem Vinnslustöðin á hlut í.
Dagur:
„Ég velti því fyrir mér í lokaverkefninu hvort hagkvæmt væri að bæta við pökkunarvél í uppsjávarhúsi Vinnslustöðvarinnar. Verkefnið varðaði bæði sjávarútvegsfræði og í viðskiptafræði í náminu. Þetta þarf að kanna enn frekar og vonandi verður það gert.“
Hallgrímur:
„Lokaverkefnið mitt fjallaði um hvort hagkvæmara væri fyrir Vinnslustöðina að framleiða krapa um borð í skipunum sínum frekar en að taka hefðbundinn flöguís með sér að heiman til veiða. Vísbendingar eru um að sú leið sé hagkvæmari en það þarf að fara dýpra í málið og setja rauntölur um kostnað alls staðar inn í dæmið. Sumt varð ég að áætla en áhugi er fyrir því að ég haldi áfram að kanna málið frá öllum hliðum.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst