Frá og með mánudeginum 3. mars gildir ný gjaldskrá Terra, þar sem kostnaður fer eftir magni og flokkun úrgangs. Greiða þarf á staðnum við losun. Þetta segir í tilkynningu á vef Vestmannaeyjabæjar.
Þar segir jafnframt að í nýjum samningi við Terra um rekstur móttökustöðvarinnar breytist fyrirkomulag losunar úrgangs í samræmi við lög og meginreglur hringrásahagkerfisins. Gjaldskráin er hluti af sorpútboði sem samþykkt var á fundi nr. 309 í framkvæmda- og hafnarráði þann 2. október 2024.
Hingað til hafa fasteignaeigendur í Vestmannaeyjum sameiginlega staðið straum af kostnaði við sorphirðu og meðhöndlun úrgangs frá heimilum í gegnum sorpgjöld sem eru inni í fasteignagjöldum.
Móttaka og förgun úrgangs hefur verið niðurgreitt af sveitarfélaginu með útsvarstekjum og á síðasta ári var kostnaður við það um 90 milljónir króna.
Alltaf hefur þurft að greiða fyrir meðhöndlun þessara úrgangsflokka sem eru í gjaldskrá og hefur sveitarfélagið gert það hingað til og þess vegna ekki rukkað sérstaklega. Sveitarfélagið má ekki niðurgreiða þessa þjónustu lengur og það þarf að breyta þessu fyrirkomulagi vegna lagaskyldu þannig að einungis þeir sem losa úrgang á móttökustöðinni greiði fyrir þjónustuna.
Ekki verður byrjað að rukka fyrir textíl fyrr en niðurstöður úr samtali við Samband íslenskra sveitarfélaga liggja fyrir þess efnis að reyna að koma þessum úrgangsstraumi í annan farveg.
Á grenndarstöðvum er söfnun á þremur úrgangsflokkum: málmi, gleri og textíl. Þar er hægt að fara með þá úrgangsflokka gjaldfrjálst.
Upplýsingar um kostnað við losun og eyðingu
Úrvinnslusjóður
Vestmannaeyjabær vill benda íbúum á mjög áhugaverða vefsíðu Úrvinnslusjóðs, www.urvinnslusjodur.is, þar sem hægt er að skoða tölfræðina á bak við sorpsöfnun sveitarfélaganna. Farið er í tengilinn “Tölulegar upplýsingar” og þar í “Sérstök söfnun”. Einnig er beinn tengill hér.
Hægt er að skoða upplýsingar um öll sveitarfélög á landinu, og ef Vestmannaeyjabær einn og sér er valinn koma tölur einungis þaðan.
Bæði er hægt að sjá magn sorps og hvernig það er flokkað, en einnig hægt að sjá hversu há fjárhæð flokkað sorp skilar sér til baka til sveitarfélagsins. Ef til að mynda er valinn seinni helmingur ársins 2024 sést að endurgreiðsla til Vestmannaeyjabær var um 6,3 milljónir króna vegna flokkaðs sorps.
Í gjaldskrá Vestmannaeyjabæjar er gert ráð fyrir þessum endurgreiðslum. Taka skal það fram að því meira sem er flokkað, því hærri er endurgreiðslan og þ.a.l. eykst svigrúmið sem Vestmannaeyjabær hefur til að halda gjaldskránni stöðugri eða lækka hana með tíð og tíma.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst