Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í byrjun vikunnar var lögð fram til samþykkis skipulagslýsing fyrir breytt aðalskipulag Vestmannaeyja 2015-2035 vegna breytingar á landnotkunarreit athafnasvæðis AT-2 frá því að flokkast sem athafnasvæði í að flokkast sem iðnaðarsvæði.
Fram kemur í lýsingu fyrir umræddri breytingu að Vestmanneyjabær hafi hafið undirbúning að gerð nýs deiliskipulags fyrir iðnaðarsvæði í Eldfelsshrauni þar sem brýn þörf er á lóðum undir iðnaðarstarfsemi í sveitarfélaginu.
Svæðið sem um ræðir er skilgreint sem athafnasvæði með auðkenni AT-2 í aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035. Samhliða gerð deiliskipulags verður gerð breyting á aðalskipulagi sem felst í að skilgreina reitinn sem iðnaðarsvæði.
Kynnt er í plagginu sameiginleg lýsing fyrir breytingu á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag. Tilgangur skipulagslýsingarinnar er m.a. að tryggja að almenningur og hagsmunaaðilar komi að skipulagsferlinu á fyrstu stigum og að gera skipulagsvinnuna gagnsæja og markvissa.
Ráðið samþykkti að auglýsa skipulagslýsingu skv. skipulagslögum og var málinu vísað til bæjarstjórnar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst