Um helgina verður boðið upp á ókeypis aðgang að Byggðasafni Vestmannaeyja. Tilefnið er tvíþætt: Annars vegar markar helgin sumarlok og verður safnið því eftir helgina einungis opið að höfðu samráði við safnstjóra Byggðasafnsins, Jóhönnu Ýr Jónsdóttur eða eftir nánari auglýsingu.
Hins vegar mun Pétur Ármannsson, arkitekt, flytja fyrirlestur í Byggðasafninu á sunnudaginn um Högnu Sigurðardóttur. Um leið og hvatt er til að mæta á fróðlegan fyrirlestur er minnt á að nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Högnu í anddyri Safnahússins en sýningin verður tekin niður í næstu viku.