Ísfélagið er með tvö skip í smíðum í borginni Concepcion sem er skammt frá upptökum skjálftans mikla í Chile á sunnudaginn. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins, sagði hjón sem eru úti á vegum félagsins vera óhult og allt í standi hjá þeim. „Við réðum vélstjóra til að hafa eftirlit með skipinu og kona hans kom út til hans í janúar. Húsið sem þau búa í þarna úti er í lagi en hverfið hefur verið girt af. Ég hef heyrt á fólki sem er úti að ástandið sé ekki eins slæmt og við höfum fréttir af, þ.e. af gripdeildum og glæpaflokkum sem fara um allt.“