„Þetta er Evrópuverkefni sem Rannís skipuleggur hér á landi og við köllum Vísindakaffi. Það byrjar í Reykjavík á laugardaginn en við ásamt fimm öðrum stöðum úti á landi verðum með okkar vísindakaffi á mánudaginn. Hjá okkur er það frá klukkan 16.30 til 19.00. Eru allir velkomnir að kíkja við í Þekkingarsetrinu,“ sagði dr. Filipa Samarra sem ásamt dr. Paul Wensveen ætlar kynna rannsóknir á hvölum sem útibú Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum annast.
Mjög fjölbreytt starfsemi er í Þekkingarsetrinu og gefst fólki tækifæri á að kynna sér hana. „Það verður opið hús. Allir velkomnir og margt að skoða. Meðal annars Fablabið hjá Frosta á þriðju hæðinni sem er mikill ævintýraheimur.
Fyrirtækin á annarri hæðinni verða opin gestum og gangandi. Sjálfur kynni ég Uppbyggingarsjóð Suðurlands, SASS en stutt er í að umsóknarfrestur þetta árið renni út. Filipa býður upp á kaffi og kleinur og fólk getur fengið leiðsögn um húsið. Þetta á að vera skemmtilegur dagur,“ sagði Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins.
Mikið er til af gögnum um hvalarannsóknirnar sem stýrt er frá Vestmannaeyjum. Ætla Filipa og Paul að sýna myndbönd af hvölum á skjá í fyrirlestarsalnum . „Það er gaman að sjá hvernig hvalir haga sér í sjónum. Marga þekkjum við og hvalir eiga sitt tungumál og erum við með hljóðupptökur sem segja sögu sem við skiljum ekki, því miður.“
Filipa segir öllum í sjáfsvald sett hvernig Vísindakaffinu er háttað en þau leggja áherslu á rannsóknir á hvölum sem þau stundað frá árinu 2007. „Hingað getur fólk komið og við munum sýna gestum það sem við erum að gera og vonumst til að sjá sem flesta.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst