Það var á vordögum árið 1986 að blaðamaður á Fréttum lét af störfum eins og gengur. Vandlátur þáverandi ritstjóri Frétta vildi ekki auglýsa eftir nýjum blaðamanni, heldur kanna markaðinn sjálfur. „Honum var meðal annars bent á að kokkurinn á Vestmannaey VE 54 væri að hugsa um að koma í land en vantaði vinnu. Hann væri duglegur, áræðinn og til í að leggja mikið á sig. Að vísu væri kokkurinn ekki vanur ljósmyndari né heldur vanur að skrifa texta og hefði ekki áhuga á íþróttum, en hann hefði hins vegar skoðanir á flestum málum og vílaði ekkert fyrir sér.“