Kæri Sigurður Ingi,
Í framhaldi af heimsókn þinni til Eyja, vildi ég rita þér mínar hugleiðingar um hvað ég tel að sé rökrétt næsta skref í samgöngubótum milli lands og Eyja.
Á fundinum hefði ég viljað koma á framfæri hugleiðingum mínum, en náði því ekki. Því geri ég það á þessum vettvangi.
Tökum dæmi: Ef t.d. þak á húsi lekur og við sjáum gat og hvar lekur inn, “hvað gerum við þá”, Það fyrsta er að þétta og loka fyrir gatið sem fyrst, svo að ekki verði frekara tjón.
Hvað er að gerast í og við Landeyjahöfn?
Við Landeyjahöfn er endalaus sandur sem er að berast fyrir hafnarminnið og hrannast þar upp svo að ófært verður.
Hvaðan kemur sandurinn?
Eins og allir sjá þá er ca. 90% af þeim sandi sem er þarna á ferðinni að koma að austan eða frá ósum Markafljóts.
Hvað skal gera til að laga ástandið að sögn Vegagerðarinnar?
Það sem Vegagerðin og þeirra ráðgjafar benda á að best væri til að minnka sandburðinn fyrir Landeyjahöfn er að færa ósa Markarfljóts ca. 3-4 km til austurs með mjög miklum kostnaði og til viðbótar þarf að fara í umhverfismat sem jafnvel tekur 12 til 18 mánuði + framkvæmdartími að lágmarki. Þessi aðgerð hefur enginn teljandi áhrif á að sandur berist ekki frá útfalli Markafljóts. Ef eitthvað á að hreifa við útfalli árinnar þá þyrfti að færa útfallið vestur fyrir höfnina til að losna við sandburðinn. Sandburðurinn sést mjög vel á öllum loftmyndum sem teknar hafa verið af svæðinu nú og löngu fyrir byggingu hafnarinnar.
Á meðan lekur sandur með ströndinni að austan inn í og að hafnarmynni Landeyjahafnar með öllum þeim kostnaði og leiðindum sem íbúar og aðrir notendur hafnarinnar þurfa að búa við.
Það eina sem ráðamönnum og ráðgjöfum dettur þá í hug til að halda höfninni opinni við þessar aðstæður er fá lélegt sanddæluskip til að dæla sandinum upp og flytja hann út á meira dýpi með verulegum kostnaði og leiðindum þar sem ekki er hægt að dæla nema ölduhæð sé undir 1,5 m sem er ekki oft hægt yfir vetrarmánuðina þegar þörfin er mest. Þetta eru einu ráðin sem mönnum virðast koma til hugar að gera. Það eru og hafa engar alvöru ráðstafanir verið gerðar sem eru til framtíðar og eru fyrirbyggjandi öll þau ár sem höfnin hefur verið í notkun hluta úr ári.
Sleppa mætti að fara í útboð á sanddælingu fyrir næsta vetur á Evrópska efnahagssvæðinu ef varnargarður yrði gerður sem veitt getur sandinum frá hafnarmynninu. Sandburður yrði þá verulega minni og Álfsnesið myndi þá líklega geta ráða við það. Einnig ætlar Vegagerðin að ráða til starfa danska straumfræðistofnun til að skoða strauma á þessum stað. Þar sjá þó allir bæði á loftmyndum og reynslu áranna hvaðan sandurinn er að koma og hvert hann leitar. Sandurinn leitar ofan í skurðinn sem dýpkunar skipið grefur í hafnarmynninu og næst þegar veður verður óhagstætt þá fyllist þessi skurður og allir eru hissa hvað þetta gerist hratt. Sandurinn fer einfaldlega styðstu leið ofan í holuna sem var grafinn og lokar fyrir hafnarmynnið. Eru þetta ekki einkennileg vinnubrögð sem verið er að framkvæma þarna. Lengri garðar mundu beina sandinum fjær og vandamálið minnkar.
Hvað kostar þetta aukalega?
Kostnaður við færslu á Markarfljóti og við straummælingar gæti jafnvel slagað upp í þann kostnað sem kostar að byrja á að loka fyrir flæði sandsins að austan með lengingu á austurgarði út undir svo kallað rif.
Með því að loka fyrir þennan endalausa sandflutning þá er líklegt að hægt verði að minnka sanddælingu um 70-80% og það munar um minna eða jafnvel meira. Væri ekki þörf á að stöðva þennan sandleka strax sem þarna er á ferðinni eins og allir mundu gera ef upp kæmi þakleki heima fyrir.
Erum við ekki að tala um sama lögmál?
Undanfarin 2 ár hafa verið eldsumbrot á Reykjanesi og í kringum Grindavík með tilheyrandi hraunflæði. Hvað hefur þar verið gert til að varna því að hraun renni niður og yfir Grindavíkurbæ og einnig við ýmsa innviði í kringum Svartsengi. Þar hafa varnagarðar verið byggðir til að veita hraunrennsli frá húsum og öðrum mikilvægum innviðum með mjög góðum árangri. Erum við ekki að tala um sama lögmál að veita sandstraumnum frá höfninni og út á dýpri sjó þar sem aðrir straumar taka við sandinum eða þar sem Álfsnesið er að losa sandinn úr skipinu.
Ég held að allir sjái hvað er um að vera en það er ekkert gert á staðnum. Verkin þurfa að fara að tala svo að árangur sjáist. Ekkert breytist ef setja á málið aftur og aftur í nefndir, ráð og spjall.
Í hnotskurn: Setjum fjármagnið frekar í að útbúa leiðigarð, fyrir utan höfnina. Þannig mætti stýra sandburðinum út í dýpið og um leið útbúa skjól fyrir ferjuna og dýpkunarskipið.
Þórður Karlsson
Höfundur er íbúi í Vestmannaeyjum og áhugamaður um bættar samgöngur á milli lands og Eyja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst