Fyrsta orgel Landakirkju var gefið af dönskum kaupmanni, Johan Peter Thorkelin Bryde, og var það svokallað harmoníum. En það er orgel sem myndar tón á svipaðan hátt og harmonikka. Það er fótstigið til að mynda loft fyrir raddirnar. Það orgel er að finna á Byggðasafninu í Vestmannaeyjum. Árið 1896 var orgel Sigfúsar Árnasonar, fyrsta organista Landakirkju, leigt. En það var árið 1904 sem keypt var annað orgel í kirkjuna. Sonur Sigfúsar, Brynjúlfur tekur við keflinu af föður sínum og þá er keypt stórt harmoníum orgel í Landakirkju árið 1927. Vestmannaeyingar hafa alltaf verið stórhuga og því var gengist í það að festa kaup á pípuorgeli fyrir kirkjuna. Ekki voru pípuorgel algeng í kirkjum á Íslandi á þessum tíma. En það var einna helst kirkjur á höfuðborgarsvæðinu sem höfðu pípuorgel. Með samtakamætti samfélagsins tókst að safna fyrir nýju pípuorgeli.
Fyrsta pípuorgelið í Landakirkju var frá danska orgel smiðnum Immanuel Starup. Orgelið hafi 12 raddir sem dreift var á 2 spilaborð og pedal. Það var vígt þann 16. ágúst 1953 af Páli Íssólfssyni dómorganista sem jafnframt tók út orgelið. Orgelið kostaði um 140 þúsund íslenskra króna. Það orgel var stækkað árið 1966 og þá bætt við 5 röddum og þar með orðið 17 raddir í heildina. Það orgel er enn til í dag og má finna það á listasafni að Forsæti, þar sem orgelið er miðja sýningar salsins.
Helstu orgel þjóðarinnar á þessum tíma var Sauer orgelið í Fríkirkjunni frá árinu 1926, 33 raddir. Frobenius orgel dómkirkjunnar frá árinu 1934, 26 raddir. Stærsta orgel landsins var þá í Kristskirkju af gerðinni Frobenius frá árinu 1950, 36 raddir. Árið 1961 kom til Akureyrar 45 radda Steinmeyer orgel og var það stærsta orgel á Íslandi þar til Klais orgel Hallgrímskirkju kom árið 1992, 72 raddir.
Eftir eldgosið 1973 hafði orgelið skemmst af völdum eldgossins. Ekki létu Vestmannaeyingar á sér standa og á aðfangadag 1977 var nýtt orgel vígt. Það orgel, sem stendur enn í kirkjunni í dag, er smíðað af Vincenzo Mascioni ítölskum orgelsmið. Orgelið er 24 raddir dreift á tvö spilaborð og pedal.
Í dag, næstum 48 árum seinna er kominn tími á mikið viðhald á orgelinu. Pípuvirki þess er orðið þreytt og þar með hefur hljómur og tóngæði dalað með tímanum. Einnig er allur stjórnbúnaður þess kominn til ára sinna. Við getum rétt ímyndað okkur þær tækniframfarir sem hafa orðið í tölvubúnaði og stýringum á síðustu 50 árum. Hvert orgel er einstakt en líkt og allt annað þarf það viðhald og endurbætur. Af þessum ástæðum hefur verið stofnaður Orgelsjóður Landakirkju til að halda utan um fjármögnun á endurbótum á orgeli kirkjunnar.
Orgelsjóður Landakirkju er félag til almannaheilla og er skráð á almannaheillaskrá. Það þýðir að einstaklingar og fyrirtæki sem vilja styrkja sjóðinn fá skattafrádrátt. Þegar einstaklingur styrkir sjóðinn fær hann kvittun þess efnis. Sjóðurinn sér svo um að koma viðeigandi upplýsingunum til skattsins og þá mun styrkurinn koma sjálfkrafa inn á næsta skattframtali.
Þeir sem vilja styrkja sjóðinn eða fá nánari upplýsingar um verkefnið eða skattafrádráttinn geta haft samband með því að senda tölvupóst á orgelsjodurlandakirkju@gmail.com.
Er það von Orgelsjóðsins að Vestmannaeyingar sýni þann metnað sem hefur einkennt sögu Landakirkju, í verki og styðji við það verkefni að endurbæta orgelið okkar í kirkjunnar okkar.
Fyrir hönd Orgelsjóðs Landakirkju
Matthías Harðarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst