Í lok júnímánaðar var komið með varmasmið og haftyrðil í sumarbúningi á Fiskasafnið, sem báðir höfðu fundist hér í Vestmannaeyjum. Varmasmiðurinn (Carabus nemoralis) fannst í garði við Foldahraun og er sá fyrsti sem vitað er um að hafi fundist í Vestmannaeyjum, en þeir eru tiltölulega nýlegir landnemar á Íslandi. Líklegt má telja að hann hafi borist með plöntum frá Hveragerði, en þar hafa varmasmiðir verið nokkuð algengir undanfarin ár. Sérstaklega hafa þeir haldið sig í görðum nálægt hverasvæðum og nafnið varmasmiður komið til vegna þess.