Vinur minn hann Óli á Hvoli er til grafar borinn í dag. Hann hrapaði til bana í Ystakletti – þeim stað á jörðinni sem honum þótti líklega vænst um. Óli var harðkjarna Eyjamaður. Hertur í þeim eldi að horfa ungur á æskuheimili sitt grafast undir glóandi hrauni; stundaði síðan sjóinn lengi vel – og bjargveiðimennsku og úteyjalíf af kappi. Lifði eiginlega eins og margir Eyjakallar hafa gert í mörg hundruð ár.
Þegar ég fékk mér lítinn bát fyrir mörgum árum plataði ég hann með mér á sjó til að sýna mér nokkur mið þar sem ég gæti veitt mér í soðið. Hann varð fljótt úrkula vonar um að ég gæti lært þetta á gamla mátann: þegar þessi punktur á Elliðaey ber í hinn punktinn og þetta grjót í Ufsabergi í toppinn á Hænu þá er þorskur undir. Ég skildi þetta og gat fundið punktinn eftir þessum leiðbeiningum en gat ómögulega munað þetta.
Það skildi Óli ekki. Það hefði verið spurning um líf og dauða fyrir sjómenn öldum saman að kunna þetta og muna – og ég væri ekki of góður til þess. Svo dæsti hann og stimplaði punktana inn í gps-tækið mitt.
Óli tilheyrði vinahópi sem hittist tvisvar á dag í kaffi, alla virka daga, allan ársins hring. Harði kjarninn mætir alltaf – svo fremi sem menn eru í Eyjum og ekki rúmliggjandi – en svo bætast við tilfallandi fuglar, eins og ég og fleiri, sem komum endrum og eins. Það er eitthvað ótrúlega sjarmerandi og skemmtilegt við þennan félagsskap og þessa áratuga gömlu hefð – og mönnum virðist líða jafnvel að þegja saman og tala saman. Stundum er eins og maður gangi inn í gamalt samtal sem þegar hefur farið fram, í síðasta mánuði eða í fyrra, en það er alveg jafn mikilvægt fyrir því!
Þarna var Óli í essinu sínu; sagði oft ekki margt en einhvern veginn alltaf nóg til að maður þóttist vita hvað honum fannst um það sem um var rætt. Nú er sætið hans Óla á Hvoli autt – og ég sakna hans.
Ættingjum og ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Myndin sem fylgir er af glöðum hópi í Ystakletti fyrir nokkrum árum. Óli er annar frá vinstri í efri röð – í bláum bol með húfu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst