Krónan gekk nýlega frá vali á þrettán samfélagsverkefnum víða um land sem Krónan styrkir á þessu ári til góðra verka. Meðal þeirra sem hlutu styrk er Pílufélag Vestmannaeyja til að styrkja og efla starf yngri flokka í félaginu.
Pílufélag Vestmannaeyja er áfengis- og vímuefnalaust félag sem leggur mikla áherslu á að bjóða börnum, ungmennum og fullorðnum í Eyjum upp á sem besta aðstöðu til iðkunar pílukasts ásamt því að gefa yngri iðkendum kost á því að keppa við jafningja sína annars staðar á landinu, hvort sem í gegnum fjarfundarbúnað eða með því að standa fyrir ferðalagi á keppnismót í öðrum landshlutum.
Krónan valdi nýlega þrettán verkefni víða um land sem hljóta samfélagsstyrk Krónunnar í ár en á hverju hausti eru valin verkefni úr fjölda umsókna, sem hljóta styrkinn. Langflest þeirra eru staðsett utan höfuðborgarsvæðisins, en eiga það öll sameiginlegt að stuðla að jákvæðum áhrifum á uppbyggingu í nærsamfélögunum á þeim þéttbýlisstöðum þar sem Krónan er til staðar. Verkefnin eiga það einnig sameiginlegt að ýta undir umhverfisvitund eða aukna lýðheilsu í formi áherslu á hollustu og/eða hreyfingu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni, segir í tilkynningu frá Krónunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst