Vetrarvertíð er nýlega lokið og Sverrir segir ávallt talsverðar birgðir saltfisks í landinu á þessum tíma. Þær séu hvorki meiri né minni en undanfarin ár. Aðal sölutíminn í fullsöltuðum saltfiski er haustin.
Útbreiðsla kórónuveirunnar og gagnráðstafanir sem þjóðir heims hafa gripið til hafa haft talsverð áhrif á saltfiskmarkaðinn eins og flesta aðra geira sjávarútvegsins hér á landi. Sverrir Haraldsson, sviðstjóri botnfisks hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda, segir að áhrifa þessa gæti ekki síst á Spáni og Ítalíu en einnig í Portúgal þótt smit þar í landi hafi verið umtalsvert færri.
Verð stýra ekki eftirspurn núna
„Þegar öll veitingahús loka þá dregur að sjálfsögðu úr eftirspurninni. En þetta er tímabundið ástand. Minni eftirspurn hefur ekkert með verð að gera heldur stjórnast af tímabundnu, samfélagslegu ástandi. Þótt verð lækki verulega er mjög ósennilegt að eftirspurn aukist til skamms tíma litið. Þetta er ástand sem þarf að ganga yfir og framleiðendur verða að sýna þolinmæði,“ segir Sverrir.
Vetrarvertíð er nýlega lokið og Sverrir segir ávallt talsverðar birgðir saltfisks í landinu á þessum tíma. Þær séu hvorki meiri né minni en undanfarin ár. Aðal sölutíminn í fullsöltuðum saltfiski er haustin.
„Við eigum auðvitað von á því að markaður opnist með haustinu og nýtt jafnvægi nást. Við megum hugsanlega búast við verðlækkunum. En það er mjög mikilvægt að menn standi fast á fótunum og efni ekki til óhóflegra verðlækkana nú því þær munu hafa mjög takmörkuð áhrif á söluna. Framleiðendur hafa lagt út ákveðinn kostnað sem þeir þurfa að fá til baka. Þess vegna vill enginn upplifa eitthvert verðhrun á þessu markaði. Það er engin ástæða til að örvænta heldur,“ segir Sverrir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst