Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur komist að þeirri niðurstöðu að slys sem urðu um borð í tveimur RIB-bátum megi rekja til þess að bátunum hafi verið siglt of hratt miðað við aðstæður. Nefndin leggur til við samgöngu-og sveitastjórnarráðuneytið að settar verði reglur sem tryggi öryggi farþega vegna tíðra slysa um borð í RIB-bátum.
Fyrra slysið varð um borð í RIB-bátnum Amma Kibba í september fyrir tveimur árum en báturinn er gerður út af Gentle Giants – Hvalaferðir ehf. Báturinn var á siglingu frá Húsavík í hægviðri þegar honum var siglt yfir kjölfar annars báts þannig að hann lyftist mikið og skall síðan niður.
ruv.is greindi frá.
Farþeginn sem slasaðist sagði við rannsóknarnefndina að hann hefði kastast upp og skollið illa niður – hann hefði heyrt hrygginn á sér brotna. Í skýrslunni kemur fram að farþeginn sé óvinnufær eftir slysið enda hafi hann hlotið samfallsbrot á hrygg.
Hitt slysið varð um borð í RIB-bátnum �?lduljón í maí á síðasta ári en þá hryggbrotnuðu tvær konur í skemmtiferð Bláa lónsins á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Ribsafari. Fram kom í fréttum R�?V á sínum tíma að önnur konan hefði slasast mun alvarlegra en hún þurfti að fara í aðgerð og var rúmliggjandi í nokkrar vikur.
Í skýrslu rannsóknarnefndar kemur fram að öldudalur hafi óvænt myndast. Haft er eftir skipstjóranum að báturinn hefði fallið um 1 til 1,5 metra en farþegar töldu fallið hafa verið talsvert meira.
Undir það tók aðstoðarmaður skipstjórans – öldudalurinn hefði að minnsta kosti verið þrefalt meiri en aðrar öldur. Nefndin telur að miðað við þessar lýsingar hafi þessi óvænta ölduhæð, þegar slysið varð, verið um 3 til 5 metrar.
Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að bæði slysin megi rekja til þess að RIB-bátunum tveimur hafi verið siglt of hratt miðað við aðstæður. Hún leggur til við samgönguráðuneytið í ljósi tíðra slysa um borð í slíkum bátum að settar verði reglur sem tryggi öryggi farþega.