Samkeppniseftirlitið hefur tekið afstöðu til samruna Bergs-Hugins ehf. og Bergs ehf. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að kaup Síldarvinnslunnar á Bergi leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c samkeppnislaga. Er þar m.a. horft til þess að hlutdeild Bergs í heildarúthlutun kvóta er óveruleg, eða 0,36%, og ekki hafa komið fram upplýsingar í málinu sem benda til þess að hið keypta félag hafi að öðru leyti umtalsvert samkeppnislegt vægi sem horfa þurfi til í þessu máli. Í ljósi þessa og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar vegna samrunans á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga.
Í þessu sambandi er rétt að árétta að Samkeppniseftirlitinu ber við rannsókn á samrunum í
sjávarútvegi að beita ákvæðum samkeppnislaga um yfirráð, eins og þau eru skilgreind í 2. mgr. 17. gr. laganna. Samkeppniseftirlitið hefur tekið til skoðunar áhrif samrunans miðað við skilning samrunaaðila á yfirráðum, en einnig með tilliti til mögulegra víðtækari yfirráða vegna stjórnunar- og eignatengsla við Samherja og Gjögur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst