Í október koma ökumenn í Vestmannaeyjum til með að verða varir við aukna viðveru lögreglu við stöðvunarskyldur bæjarins. Ástæðan fyrir því er sú að Lögreglan í Vestmannaeyjum ætlar að halda úti sérstöku eftirliti með stöðvunarskyldum. Þetta kemur fram í tilkynningu á facebook-síðu Lögreglunnar í Vestmannaeyjum.
„Til upprifjunar þá þýðir stöðvunarskylda einfaldlega að þú eigir að stöðva bifreiðina alveg áður en þú heldur áfram. Samt freistast margir til að hægja á sér og halda áfram ef þeir telja það öruggt.
Þess ber að geta að sektin fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu er 30.000 krónur og færast 2 punktar í ökuferilsskrá. Við ætlum að deila með ykkur smá ráði þegar þið komið að slíku merki sem kemur í veg fyrir að þið fáið slíka sekt. Hugsið merkið sem rautt ljós og stöðvið alveg. Ekki fyrr en þið eruð stopp skuluð þið horfa á umferðina um gatnamótin áður en þið akið áfram. Þannig er það hugsað og það er rétt aðferð.
Stöðvunarskylda er notuð á gatnamótum ef biðskylda er ekki talin nægilega örugg. Fyrir því geta verið nokkrar ástæður. Tíð slys eða skert útsýni eru þær helstu,” segir í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst