Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri lagði ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2020 fram til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar í liðinni viku og upplýsti um að engar breytingar hefðu orðið á ársreikningnum á milli umræðna.
Háværar viðvörunarbjöllur í framlögðum ársreikningi
Í bókun frá bæjarfulltrúum D lista um málið segir: Þrátt fyrir sterka fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar, þar sem ábyrg fjármálastjórnun undanfarinna kjörtímabila hefur gert það að verkum að langtímaskuldir sveitarfélagsins eru nær engar og eigin fjárstaða er sterk birtast nú háværar viðvörunarbjöllur í framlögðum ársreikningi. Hallarekstur aðalsjóðs er staðreynd ásamt því að veltufé frá rekstri aðalsjóðs sem hlutfall af heildartekjum hefur ekki verið jafn lágt síðan 2007, en það merkir að fjárflæði úr rekstrinum er í sögulegu hámarki síðustu 13 árin. Tap vegna reksturs Herjólfs hefur engin áhrif á veltufé frá rekstri.
Jákvæð niðurstaða á samstæðureikningi varnarsigur
Henni var svarað með bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista: Heimsfaraldurinn á árinu 2020 reyndi verulega á hér í Vestmannaeyjum, en með samvinnu, samstöðu og samkennd, tókst Vestmannaeyingum að komast í gegnum árið af miklum myndarskap.
Á fundi bæjarstjórnar þann 16. apríl 2020, samþykkti bæjarstjórn allt að 714 milljóna króna aðgerðarpakka til viðbótar við fjárhagsáætlun, til þess að treysta atvinnu og tryggja gang samfélagsins á erfiðum tímum. Sú aðgerð skilaði árangri fyrir atvinnulífið og einstaklinga, en að sjálfsögðu hafði það áhrif á rekstrarafkoma bæjarins fyrir árið 2020
Þrátt fyrir neikvæða rekstrarniðurstöðu á aðalsjóði bæjarsjóðs, sem stafar af ýmsum óvæntum útgjöldum, svo sem Covid, Herjólfi, hækkun kjarasamninga og auknum lífeyrisskuldbindingum, er sú niðurstaða óveruleg, sérstaklega í ljósi allra þeirra áfalla og launahækkana samfara nýjum kjarasamningum. Meirihluti E- og H- lista lítur svo á að jákvæð niðurstaða á samstæðureikningi bæjarins sé ákveðinn varnarsigur eftir erfitt ár. Öll sveitarfélög hafa verið að glíma við fjárhagserfiðleika í tengslum við Covid, svo sem skert útsvar og skertra framlaga úr Jöfnunarsjóði, en jafnframt þurft að ráðast í auknar framkvæmdir til að tryggja atvinnu og lífsviðurværi íbúa. Covid hafði gríðarleg áhrif á tekjur Herjólfs, þannig að ganga þurfti á allt hlutafé félagsins, með tilheyrandi áhrifum á bæjarsjóð. Samt er staða bæjarsjóðs góð og bærinn stendur á traustum grunni.
Fjármálastjórnun bæjarins er fagleg og vel ígrunduð og sveitarfélagið vel í stakk búið að vinna úr þeim aðstæðum sem uppi eru. Staða Vestmannaeyja er sterk og full ástæða til bjartsýni framundan.
Niðurstöðutölur úr ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2020:
a) Ársreikningur sjóða í A-hluta 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -156.231.000
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. -60.211.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 12.405.835.000
Eigið fé kr. 6.969.004.000
Samstæða Vestmannaeyjabæjar
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. -160.964.000
Rekstrarafkoma ársins (jákvæð) kr. 29.171.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 14.891.123.000
Eigið fé kr. 9.220.110.000
b) Ársreikningur Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 31.100.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 46.913.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 2.149.554.000
Eigið fé kr. 1.944.336.000
c) Ársreikningur Félagslegra íbúða 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 19.606.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 9.636.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 743.691.000
Eigið fé ( neikvætt) kr. -79.431.000
d) Ársreikningur Fráveitu Vestmannaeyja 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 48.597.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 30.680.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 706.602.000
Eigið fé kr. 342.111.000
e) Ársreikningur Dvalarheimilisins Hraunbúða 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -93.142.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 252.994.000
Eigið fé kr. 29.806.000
g) Ársreikningur Vatnsveitu 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 0
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 368.000.000
Eigið fé kr. 0
h) Ársreikningur Vestmannaeyjaferjunar Herjólfs ohf 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -113.339.000
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. -113.038.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 148.118.000
Eigið fé (neikvætt) kr. -5.011.000
i) Ársreikningur Náttúrustofu Suðurlands 2020:
Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 7.163.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 7.163.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 20.355.000
Eigið fé kr. 19.293.000
Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir 2020 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.
Vestmannaeyjabær ársreikningur 2020_síðari umræða_12052021.pdf
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst