Sigurgeir Jónsson:   Tjaldurinn í Gvendarhúsi
20. janúar, 2024

Tveir myndarlegir ungar komust á legg þetta sumarið

Þeir eru fremur stundvísir, tjaldarnir sem gert hafa sig heimakomna í nágrenninu við okkur í Gvendarhúsi á undanförnum árum. Í fyrra mættu þeir þann 29. mars, á afmælisdaginn hennar Katrínar, en í ár komu þeir degi fyrr, sennilega til að missa ekki af afmælisveislunni. Og húsráðendur í Gvendarhúsi tóku að sjálfsögðu fagnandi á móti þessum fyrstu afmælisgestum og dreifðu brauðmolum út á blett sem voru mótteknir með ánægju enda erfið ferð að baki yfir  sjálft Atlantashafið og hingað í sælunnar reit.

Við sáum fljótlega að hér voru líklega á ferð sömu hjónin og voru hjá okkur árið áður, svo líkir voru taktarnir. Og þegar þau svo eftir nokkra daga flugu upp á flugvallarbrúnina til að athuga með hreiðurstæði, þá fannst okkur ekki fara milli mála að þetta væru sömu fuglar enda hreiðurstæðið hið sama.

En svo tóku við rólegheitadagar. mér er sagt að tjaldurinn stundi sitt tilhugalíf á hverju vori eins og hann hafi aldrei hitt sína útvöldu fyrr, jafnvel þótt um margra ára samvistir sé að ræða. Og svo virðist einnig hafa verið að þessu sinni þótt við sæjum minnst af því. Mér hefur stundum dottið í hug hvort lífið hjá okkur mannfólkinu myndi eitthvað breytast til hins betra ef við tækjum upp þesssa siði tjaldsins. En nóg um það.

Næstu dagana sáum við ekki mikið til þeirra hjóna (eða hjónaleysa) þau héldu sig talsvert út af fyrir sig og fyrir kom að þau eftirlétu dúfunum alveg það sem kastað var út á blettinn daglega sem fuglafóðri. Hafa kannski flögrað suður í Klauf þar sem alltaf er nóg æti að finna.

Fiskur í uppáhaldi

Og nú leið nokkur tími þar sem þau hjón voru ekki mikið á ferðinni, sáust stöku sinnum saman eða sitt í hvoru lagi og ekkert endilega á matmálstímum heldur undu sér við að plokka upp ánamaðka og annað góðgæti (sem er trúlega mun betri undirstöðufæða en brauðmetið). Búin að velja sér hreiðurstæði og undu hag sínum hið besta í tilhugalífinu. Mættu þó stundum um kvöldmatarleytið og voru svo heppin að fá afganginn af fiskinum sem eldaður hafði verið. En fiskmeti er mikið uppáhald þessara fugla. Og þó að samneytið við dúfurnar hafi alla jafna verið gott á matmálstímum þegar brauði var hent út, þá snarbreyttist það ef fiskur var í boði. Þá voru dúfurnar reknar brott hið snarasta og þau sátu yfirleitt ein að því fæði. Dúfurnar, þeir þolinmóðu og kurteisu fuglar, gerðu sér hins vegar að góðu að mæta aðeins seinna og tína í sig kartöflurnar sem gengið höfðu af.

Og svona liðu vikurnar áfram, hver af annarri þar til í júníbyrjun. Þá kom í ljós að tjaldshjónin í flugvallarkantinum höfðu komið upp tveimur ungum sem sóru sig í ætt foreldranna. Og nú tók heimsóknum þeirra að fjölga. Reyndar héldu þau ungunum frá suðurhlutanum af lóðinni þar sem matargjafirnar voru yfirleitt settar. Völdu þeim frekar svæðið vestan við húsið þar sem alla jafna er skýlla ef eitthvað blæs. Kenndu þeim að tína ánamaðka og flugu síðan eftir brauði og öðru æti handa þeim suður fyrir hús og færðu þeim. Hafa kannski ekki treyst ungviðinu fullkomlega til að kljást við dúfurnar

Íhaldssemi í öndvegi

En þetta sumarið, eins og reyndar áður, voru fleiri sem vildu komast í matargjafirnar í Gvendarhúsi en dúfurnar og þessi tjaldafjölskylda. Í Suðurgarðslandinu hafði einnig verpt annað tjaldapar og sömuleiðis komið upp tveimur ungum. Og þeir fuglar höfðu komist að því gegnum tíðina hvenær dagsins var von á mat út á blett í Gvendarhúsi og annar fuglinn (líklega karlfuglinn) flögraði einatt yfir til að ná í bita. En hann var enginn aufúsugestur og var samstundis rekinn á braut með látum. En þessi tjaldur í Suðurgarði var greinilega bráðgreindur og sérlega flugfimur því að hvað eftir annað skaust hann úr loftinu niður á blettinn á fleygiferð og greip bita í gogginn áður en nokkur hafði áttað sig á hvað var að gerast. Flaug svo á braut en átti til að endurtaka leikinn innan tíðar. Þetta háttalag féll tjaldinum í Gvendarhúsi ekki vel í geð en hann fékk þar engu breytt. Hinn fuglinn var bara miklu sneggri, líklega eitthvað yngri, og því lét hann sig hafa þetta, þó líklega ekki ánægður.

Þessi hegðun tjaldanna fyrir ofan hraun hefur stundum orðið mér umhugsunarefni. Inni í Herjólfsdal er mikið um tjald á hverju sumri en þar virðast allir lifa í sátt og samlyndi, eru þar oft í hópum tugum saman og virðast skipta milli sín því brauði sem vegfarendur færa þeim. Engin slagsmál eða læti. En hér fyrir ofan hraun er allt annað í gangi og sá nágrannakærleikur sem ríkir milli bæjanna hér, virðist ekki ná til tjaldanna. Mér virðist sem tjaldarnir sem sest hafa að í landi Gvendarhúss, telji sig öðrum rétthærri og ríki þar eins og óðalsbændur; enda hef ég áður frá því greint að forfeður þeirra hafi  talið sig brottrekna af jörðinni þegar við byggðum Gvendarhús.. Það hefur líka stundum verið sagt um íbúa fyrir ofan hraun að þeir séu í eðli sínu íhaldssamari en aðrir og kannski á það við um fuglana líka.

Vargurinn rekinn á braut

Og þannig leið þetta sumar, oftast friðsamt meðal fuglanna en fyrir kom á varptímanum og meðan ungarnir voru að komast á legg að bægja þurfti frá svartbak sem sótti talsvert hingað, þó minna en undanfarin ár. Og eins og áður voru það tjaldarnir sem skipuðu sér þar í fylkingarbrjóst og óðu alls óhræddir í vargfuglinn, dyggilega studdir af stelkinum sem sá um brottreksturinn til sjávar. Þarna virtust fuglarnir sameinast þó að ekki væru þeir alltaf sammála um allt.

Um þjóðhátíðina fórum við upp á land eins og yfirleitt hin síðustu ár og leyfðum þjóðhátíðarþyrstum afkomendum okkar að nýta húsnæðið. Minntum þau raunar á að gefa fuglunum. En þegar við snerum til baka, var enga tjalda að sjá við Gvendarhús. Reyndar var tjaldurinn í Suðurgarði enn á staðnum og þáði góðfúslega það sem gefið var til matar, ótruflaður. En okkar fuglar létu ekki sjá sig, hafa líkast til haldið í fjöruna að kynna ungunum það lostæti sem þar er að finna. Yfirleitt hafa þeir komið við og kvatt okkur áður en þeir halda yfir hafið til hlýrri stranda en slepptu því að þessu sinni. Við erum bara þeim mun spenntari yfir komu þeirra á næsta vori.

Eftirmáli

 Ég byrjaði þessi skrif um tjaldana í Gvendarhússlandinu árið 2007, fyrir réttum 17 árum, þá tiltölulega nýfluttur upp í Gvendarhús og grunaði þá ekki að þetta ætti eftir að verða lesefni í öðrum eins fjölda jólablaða Eyjafrétta og raunin hefur orðið. Þetta hefur verið hin ánægjulegasta iðja, að rifja upp hin ótrúlegustu uppátæki þessara svarthvítu nágranna okkar og reyndar annarra fugla líka. Þetta er búið að vera hið besta yrkisefni og ég er greinilega ekki einn um þá skoðun, þar sem stór hópur lesenda þakkar mér ævinlega á ári hverju fyrir skrifin.

En nú er mál að linni. Þegar menn eru komnir á þann aldur sem skrifari er nú kominn á, eru ýmsir hlutir erfiðari en þeir voru fyrir nokkrum árum. Og því er einmitt þannig farið um þessa iðju. Þetta tekur orðið lengri tíma og er ekki (að mér finnst) eins vel og skemmtilega unnið og áður var. Þess vegna hef ég ákveðið að þessi pistill um tjaldana vini mína verði sá síðasti af minni hálfu. Við hjónin munum að sjálfsögðu fylgjast áfram með þeirra háttalagi sem og annarra nábúa þeirra (auk þess að sjá þeim fyrir hluta af þeirra fæði) en afraksturinn af því verður ekki rakinn meira í jólablaði Eyjafrétta.

Ég vil að endingu þakka góðar viðtökur við þessum pistlum mínum um samlíf fugla og fólks og þakka þeim sem lagt hafa mér lið, ekki síst afadætrum mínum þremur, þeim Lovísu, Sögu og Birtu sem séð hafa um myndskreytingar fyrir afa sinn hin síðustu ár.

Með kveðju og ósk um gleðileg jól og farsæld á nýju ári

Sigurgeir Jónsson

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
Forsida 17 Tbl EF Min
17. tbl. 2024

NÝBURAR

Drengursnorrason
23. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Svanhildur Eiríksdóttir og Sindri Sigfússon

NÝBURAR

Lovisu
8. október 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Lovísa Jóhannsdóttir og Jökull Andri Sigurðsson

NÝBURAR

462560821 8781643355208571 772013136079801246 N
17. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Aníta Björk Friðriksdóttir og Sigurbjörn Þórður Árnason.

NÝBURAR

Tandri
13. september 2024
Drengur
Hsu, Vestmannaeyjum.
Dagur Arnarsson og Svava Tara Ólafsdóttir.

NÝBURAR

Bfec0ecf E4f8 466a 89f9 94c607ba1ec5
24. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og Díana Ólafsdóttir

NÝBURAR

Natan Orn
14. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Þórey Lúðvíksdóttir og Elías Skæringur Guðmundsson

NÝBURAR

F4c5612c Ae8a 4d77 B83d C5f14f2007fe
26. september 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Þorgeir Þór Friðgeirsdóttir og Elín Inga Halldórsdóttir

NÝBURAR

Moller
20. september 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
William Thomas Möller og Jenný Guðnadóttir.

NÝBURAR

E50c5f3f Ddd5 4ee2 8685 Dad7e0e417ad
2. ágúst 2024
Stúlka
Fæðingadeild HVE, Akranes
Sigurdís Egilsdóttir og Gunnlaugur Örn Guðjónsson

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson

NÝBURAR

IMG 2234 800x800
28. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Helen Dögg Karlsdóttir og Gísli Ingi Gunnarsson
Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst