Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum flutti framsögu á fundi í Valhöll í Reykjavík í dag um sjávarútvegsmál. „Reikningar sjávarútvegsfyrirtækja sýna að reksturinn er heilbrigður, greinin þolir hins vegar ekki hækkun veiðileyfagjalds eins og ríkisstjórnin hefur boðað. Stjórnendur fyrirtækjanna bregðast eðlilega við skattheimtunni með niðurskurði í rekstrinum. Í stað þess að byggja upp greinina verður starfsfólki sagt upp störfum og dregið úr öllum fjárfestingum. Fyrirtækin munu ekki leggja fjármuni í arðbær verkefni eins og markaðssókn, stoðfyrirtæki sjávarútvegsins og svo framvegis.“