Ástandið hér í Eyjum er löngu orðið svo grafalvarlegt að hálfpartinn finnst mér eins og við séum hér í hlutverki Nerós. Byggðin hér hangir á bláþræði og við efnum til framboðsfundar til þess eins að mæra okkur sjálf. Neró sat á þaki og lék á fiðlu meðan borg hans brann.
Nú kann ég ekki ráðin til að rífa upp byggð í Eyjum eða annars staðar í jaðarbyggðum landsins. En fyrsta skrefið í þá átt er pólitískur vilji. Framsóknarmenn hafa verið hálfvegis ragir við að halda fram hagsmunum landsbyggðarinnar. Sumir þeirra vilja jafnvel trúa því að sveigja verði frá gömlu framsóknargildunum til þess eins að laða til fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Sem ekki tekst með þeim aðferðum.
Fylgi á höfuðborgarsvæðinu nær Framsókn ef flokkurinn kannast við sínar gömlu hugsjónir og þorir að berjast fyrir hagsmunum hinna dreifðu byggða. Bæði í Breiðholti og Vesturbæ búa fjölmargir einarðir talsmenn landsbyggðarinnar. Slagkraftur íslenskra stjórnvalda í byggðamálum hefur lengi verið lítill. Málið er ekki í tísku. �?ví er jafnvel haldið fram að í sértækum byggðaaðgerðum felist mismunun þegnanna. Ekkert er fjær sanni. Enginn efast um að skattakerfið eigi að vera til lífskjarajöfnunar þegnanna. En það á líka að vera til lífskjarajöfnunar byggðanna. Hagvöxtur er gríðarlegur í byggðum næst Reykjavík en samdráttur víða í jaðarbyggðum. Jöfnunartækifærin eru fjölmörg með skattaafsláttum á landsbyggðinni, niðurgreiðslum til dæmis á flutningi og beinum fjárframlögum þar sem það á við.
�?vert á þetta hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að verkefnatilflutningi frá landsbyggð til höfuðborgarinnar. Og frá minni byggðarlögum til hinna stærri. Til baráttu gegn þessu þarf Framsóknarflokkurinn að sýna kjark sinn, vilja og hugsjónir. Enginn annar flokkur er til þess líklegur.
Náttúruhamfarir 1973 náðu ekki að eyða byggð á Heimaey. Við megum þó ekki trúa því að andvaraleysi í pólitík geti ekki aleytt henni. Við börn 21. aldarinnar fengum Ísland að léni frá áum okkar albyggt utan miðhálendis og Jökulfjarða. Vissulega geta og mega áfram verða lítils háttar tilfærslur í byggðalínunni en ef við ætlum að skila Íslandi til komandi kynslóða sem borgríki við Faxaflóa hefur okkur illa farist.
Höfundur er bóksali og blaðamaður á Selfossi. Hann sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer næsta
laugardag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst