HM karla í handbolta hófst formlega í gær með leik Frakklandi gegn Katar í Herning í Danmörku. Eins og mörgum er orðið kunnt spilar Ísland sinn fyrsta leik á fimmtudaginn n.k. gegn Grænhöfðaeyjum. Við hjá Eyjafréttum tókum púlsinn á stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í aðdraganda mótsins og ræddum við Sigurð Bragason handboltaþjálfara ÍBV kvenna.
Hvernig telur þú að Íslandi muni ganga í riðlakeppninni? Ég held að þetta verði bara mjög gott. Mér fannst leikirnir við Svía núna fyrir mót sýna að liðið er vel klárt. Mér finnst ekki vera þessi mikla pressa á leikmönnum, væntingum er stillt í hóf og meiri fókus á handbolta. Lítið hefur farið fyrir óraunhæfum kröfum spekinga eins og oft áður. Við erum, eins og oftast í riðlum HM, í nokkuð þægilegum riðli. Liðið ætti vissulega að vinna Kúbu og Grænhöfðaeyjar en svo verður þetta líklega úrslitaleikur við Slóvena um að taka 2 eða 4 stig með sér í milliriðil. Leikurinn við Slóvena er síðasti leikur riðilsins, þannig að við verðum búnir að hrista af okkur allan hroll og komnir á fullt.
Mér fannst varnarleikur liðsins við Svía flottur og markmenn liðsins góðir. Það gefur augaleið að ef Ísland ætlar að ná í topp 8 þá verða þessir hlutir að vera í lagi. Nú erum við með leikmenn sem eru að spila stór varnarhlutverk í sínum félagsliðum sbr. Elvar, Elliði, Janus, Ýmir og Viggó er það líka. Það er svolítið annað en áður, þar sem okkar lykilmenn hafa verið bestu sóknarmenn heims. Við erum áfram með þessa góðu sóknarmenn en ég held að varnarlega séum við sterkari en áður.
Telur þú það muni hafa mikil áhrif á liðið að það vanti nokkra lykilmenn í liðið? Vissulega, en það má ekki gleyma að það glíma öll lið við eitthvað slíkt. Aron hefur ekki verið í stóru hlutverki hjá Íslenska landsliðinu undanfarin ár þannig að ég held að það sé ekki of stórt högg. Okkur munar vissulega um Ómar, en ég held að nú fari Viggó pressulaus inn í þetta mót og neglir það, hann er með Teit með sér sem er toppmaður. Mér finnst Viggó alltaf hafa staðið sig á stórmótum og ég held að það verði líka núna.
Hvaða lið í riðlinum telur þú vera helstu ógnirnar fyrir Ísland? Engin spurning að það mun vera Slóvenar. Þeir eru í svipuðum styrkleika og Ísland, en Ísland ætti, ef allt verður eðlilegt að fara þægilega í gegnum Grænhöfðaeyjar og Kúbu. Það má þó ekki vanmeta Grænhöfðaeyjar, þeir eru með marga frábæra handboltamenn.
Úrslitaleikurinn verður að öllum líkindum við Slóvena, og í raun mikilvægasti leikur mótsins. Því sigur þar gefur okkur væntalega leyfi á eitt tap í milliriðli til að komast í 8 liða úrslit.
Hverjir eru helstu styrkleikar íslenska landliðsins að þínu mati? Ísland alltaf verið heimsklassa sóknarlið, við höfum notið góðs af samvinnu Gísla, Ómars og Janusar. Það verður spennandi að sjá hvort Viggó nái Ómars ,,standard”. En eins og ég nefndi fyrr þá held ég að varnarleikur liðsins verði sterkur og jafnvel sterkari en oft áður á þessum mótum.
Þetta er samt alltaf sama lumman, og það er markvarslan. Ef að Ísland nær 30% + í markvörslu að jafnaði þá fer Ísland í undanúrslit. Sjáið til!
Hvernig finnst þér að sjá Elliða Snæ Viðarsson sem fyrsta Eyjamannin til að vera fyrirliði íslenska landsliðsins? Auðvitað svakalega skemmtilegt. Við getum verið ákaflega stolt af okkar manni, hann ber þetta með sóma enda frábær liðsmaður og skemmtilegur gaur. Ég hef bullandi trú á Elliða, að hann muni eiga gott mót.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst